22/12/2024

Strandabrugg – kynning í dag kl. 17:00

Síðustu vikur hefur verið unnið hörðum höndum í Austurhúsi Galdrasafnsins á Hólmavík að tilraunaframleiðslu á bjór. Verkefnið er unnið á vegum Strandagaldurs á Hólmavík. Fyrirhugað er að sala á framleiðslunni hefjist í sumar og verða þrjár tegundir í boði undir vörumerkjunum Galdur sem er hefðbundinn bjór, Hvíti-Galdur sem er léttöl og Svarti Galdur sem verður sterkur, dökkur og rammur. Ólafur Númason frá Hólmavík sem starfar sem hönnuður á Akureyri hefur hannað línu Strandabruggs en svo kallast bruggdeild Strandagaldurs. Í dag, skírdag, verður kynning á þessari framleiðslu og hefst hún kl. 17:00 á Galdrasafninu. Þar segir Sigurður Atlason frá verkefninu og fyrirhugaðri framleiðslu, auk þess sem gestir fá að smakka á tilraunaölinu sem nú er fullbruggað.

Kynningunni verður einnig varpað út í gegnum netfundabúnað og má tengjast undir þessum tengli kl. 17:15.

Að sögn Sigurðar eru allir velkomnir á kynninguna; „Framleiðslan hefur tekist vel og ég er kampakátur með útkomuna, er búinn að vera í bragðprófun síðustu daga. Útlitið á flöskunum er líka algjör snilld hjá Óla og ég hlakka til að fá Strandamenn í heimsókn í dag til skoða fánana og merkin og auðvitað að njóta veiganna með mér. Bragð er að, þá barnið finnur á sér, segir málshátturinn,“ sagði Sigurður og hló dátt í samtali við fréttaritara.

Búnaður til að framleiða bjór er ekki ýkja flókinn, en Sigurður mun fara yfir tækjabúnaðinn í kynningu sinni.

Miklar vonir eru bundnar við verkefnið Strandabrugg, sem er sjálfstæð rekstrareining tengd Kaffi Galdri og verður ölið á boðstólum þar í sumar. Vonast er til að tekjur af verkefninu dugi til að greiða skuldir Strandagaldurs og ljúka uppbyggingu Galdrasýningarinnar nú á 10 ára afmæli hennar. Verkefnið mun skapa 2 störf á Ströndum. Árni Páll Jóhannesson aðalhönnuður Galdrasýningarinnar hefur teiknað upp mynd af því hvernig Austurhúsið mun líta út í framtíðinni, en ætlunin er að framleiðslan fari þar fram.

Bjórfáninn blaktir yfir Galdrasýningunni

Uppfært 2. apríl: Eins og margir hafa eflaust getið sér til þá er þessi frétt aprílgabb strandir.is þetta árið.