30/04/2024

Fjórðungsþing framundan á Reykhólum

Háskalegur vegurFjórðungsþing Fjórðungssambands Vestfjarða er framundan á Reykhólum á föstudag og laugardag og má nálgast dagskrána undir þessum tengli. Búast má við fjörugum umræðum á þinginu, til að mynda um samgöngu-, fjarskipta- og sveitastjórnarmál, en Kristján Möller ráðherra þessara málaflokka mun ávarpa þingið á föstudegi, ásamt Sturlu Böðvarssyni og Halldóri Halldórssyni. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is heitir á sveitarstjórnarmenn á Ströndum og Vestfjörðum öllum að gleyma því ekki eitt andartak í umræðum um samgöngumál að í fjórðungnum er 50 manna byggð sem ekki býr við heilsárs samgöngur á eina veginum sem þangað og þaðan liggur. Árneshreppur er eina slíka samfélagið á landinu.

Jafnframt er rétt að minna á að fyrir um áratug náðist það markmið Fjórðungssambandsins að tengja nálæga þéttbýliskjarna með bundnu slitlagi, alls staðar nema á milli Drangsness og Hólmavíkur þar sem enn er unnið að lagfæringum og eftir að bjóða út vegagerð á 2,5 kílómetrum innst í norðanverðum Steingrímsfirði. Ekki eru þekktar ástæður þess að Strandamenn voru skyldir útundan við þessa uppbyggingu, nema þá einfaldlega áhugaleysi ráðamanna. Milli staðanna eru 34 kílómetrar, vegurinn liggur með sjó alla leið og engin sérstök vandamál eru við vegagerð við Steingrímsfjörðinn vegna aðstæðna.

Þá telur ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is rétt að minna á öryggismál, en gríðarlega mikilvægt hlýtur að teljast að gerð verði veruleg bragarbót á hættulegum vegarköflum á Vestfjörðum öllum. Einbreitt malbik ætti til að mynda allt að heyra sögunni til og ætti engum að bregða þó hinn háskalegi vegur í Bitrufirði sé nefndur sérstaklega sem fyrirbæri sem löngu er tímabært að laga. Beygjur þarf einnig víða að laga í öryggisskyni, einbreiðum brúm þarf að fækka með markvissu átaki og malbika í kringum þær sem eru á malarvegum.

Þá er brýnt að gera öryggisráðstafanir alls staðar þar sem hætta er á grjóthruni eða ofanflóðum, hvort sem slíkt útheimtir varnargirðingar, vegskála eða jafnvel jarðgöng. Slíkar lagfæringar á vestfirskum vegum vegna öryggis vegfarenda þarf að vinna samhliða verkefnum sem snúast um nýlagningu vega og má ekki að hafa áhrif á framkvæmdahraða við nýbyggingu vega á svæðinu.