23/04/2024

Íbúar Kaldrananeshrepps fá veiðileyfi í Bjarnarfjarðará

Á síðasta fundi sveitastjórnar Kaldrananeshrepps var ákveðið að skipta þeim 84 veiðistöngum eða veiðileyfum sem hreppurinn hefur til umráða í Bjarnafjarðará á milli hreppsbúa. Verður dregið um hver fær hvaða dag og síðan geta menn skipt dögum eða selt sína daga hæstbjóðanda ef menn ekki geta nýtt sína daga einhverra hluta vegna. Miðað verður við kjörskrá 12. maí síðastliðinn, en þá voru á kjörskrá 83 og er allur kærufrestur löngu útrunninn. Hins vegar kemur sumar eftir þetta sumar og trúlega verður þá miðað við íbúaskrá 1 des. 2007 og ættu því þeir veiðiáhugamenn sem ekki eiga nú þegar heima í Kaldrananeshreppi að fara að huga að flutningi þangað.


Dregið verður úr pottinum við grillið á sjómannadaginn á Drangsnesi þann 3. júní, en Björgunarsveitin Björg verður með stórskemmtilega dagskrá allan daginn og ekki skemmir þessi dráttur fyrir. Ljósmyndin sem fylgir fréttinni er af Haraldi Ingólfssyni á Drangsnesi við laxveiði, tekin af Árna Þór Baldurssyni í Odda.