22/12/2024

Stórbruni í húsi Trampe greifa

Stórbruni á sér stað í Reykjavík þessa stundina en eldur kom upp í Austurstræti 22 og breiddist yfir í næstu hús. Þar á meðal hús sem Trampe greifi reisti, en hann var danskur stiftamtmaður á árunum 1806-1813 að undanskildu því tímabili þegar Jörundur hundadagakonungur réði ríkjum á Íslandi sumarlangt. Trampe greifi er ein aðalpersóna þeirra atburða sem áttu sér stað sumarið 1809 þegar Jörundur hundadagakonungur rændi völdum á Íslandi. Leikfélag Hólmavíkur er einmitt að sýna Jörund hundadagakonung um þessar mundir og Victor Örn Victorsson skólastjóri á Hólmavík fer með hlutverk Trampe greifa. Hús Trampe greifa stendur á horni Lækjargötu og Austurstrætis í Reykjavík.

Næstu sýningar Leikfélags Hólmavíkur á leikritinu Þið munið hann Jörund verða næstkomandi laugardag og sunnudag kl. 20:30. Miðapantanir eru í síma 865 3838. Þetta er frábær skemmtun og eru allir hvattir til að sjá sýninguna minnst þrisvar sinnum, því þetta er sannarlega eldfim sýning.

Slökkvistarf stendur yfir þessa stundina og ljóst er að um talsvert miklar menningarsögulegar skemmdir er að ræða.