26/04/2024

Að mega róa til fiskjar!

Aðsend grein: Jón Bjarnason
Í flennistórri fyrirsögn í Fréttablaðinu miðvikudaginn í síðustu viku stendur „Fiskveiðikvóti Vestfirðinga hefur nær tvöfaldast frá 2001". Vitnað er til skýrslu frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, LÍÚ. Staðreyndin er hins vegar sú, ef litið er á tölur Fiskistofu, að landaður botnfisksafli á Vestfjörðum, frá Brjánslæk til Hólmavíkur, minnkar frá árinu 2001 til 2006 um 30%. Árið 2001 var landaður botnfisksafli á Vestfjörðum 52.624 tonn eða 13% hlutdeild. Árið 2006 er landaður botnfisksafli á Vestfjörðum 49.488 tonn eða 10% af hlutdeildinni.

Landaður botnfiskafli á Vestfjörðum er því um 3000 tonnum minni 2006 en 2001 og hlutdeild  í heildarbotnfisksafla landsmanna 30% minni en þá. Sem dæmi má nefna Hólmavík, en 1997-1998 var kvótinn þar 5.300 tonn, en í dag er hann aðeins 450 tonn.

Blekkingar og áróður LÍÚ

Í áróðursfréttinni frá LÍÚ er talað um tvöföldun á veiðiheimildum sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum frá árinu 2001 til 2006. Hér er mjög hallað réttu máli. Hvergi er þess getið að miklar breytingar hafa orðið á þessu árabili, sérstaklega á stöðu smábátaflotans. Þannig var sett aflahámark á kvótabáta vegna veiða á ýsu, ufsa og steinbít árið 2001 sem ekki var áður. Árið 2004 var dagabátakerfið lagt niður með lögum og fært inn í kvótakerfið. Auðvitað breyttust þá veiðidagarnir í kvóta og koma inn í þessar tölur sem LÍÚ er að tala um, sem aukinn kvóti að því marki sem sá kvóti hefur orðið til og haldist áfram á Vestfjörðum. Fiskveiðiheimildir dagabátanna reiknuðust eðlilega ekki inn sem kvótaeign. Með breytingu úr dögum í kvóta er í sjálfu sér ekki verið að auka veiðiheimildir á svæðinu. Að mínu mati var það röng ákvörðun að leggja niður dagabátakerfið enda hefur sú breyting komið mjög hart niður á mörgum sjávarbyggðum, ekki síst á Vestfjörðum.

Vestfirðingar bera skarðan hlut frá borði

Í frétt á bb.is 11. apríl síðastliðinn, er greint frá því að atvinnutekjur af fiskveiðum á Vestfjörðum hafi lækkað um 36% á árunum 1998 til 2005: „Á árinu 1998 voru atvinnutekjur í fiskveiðum um 2.273 milljónir eða um 9,16% af heildaratvinnutekjum atvinnugreinarinnar á landinu öllu. Atvinnutekjur af fiskveiðum voru hins vegar einungis 1.463 á árinu 2005 eða um 9,99% af heildaratvinnutekjum landsins. Atvinnutekjur af fiskveiðum á Íslandi hafa haldist óbreyttar í krónutölu á tímabilinu 1998-2005 og því má segja að ef Vestfirðir hefðu haldið hlut sínum í greininni hefðu atvinnutekjur verið um 453 milljónum hærri á árinu 2005. Þá fækkaði starfandi einstaklingum í fiskveiðum í fjórðungnum um 47% á sama tímabili en um 34% á landinu öllu.

Íbúar sjávarbyggðanna eigi varinn rétt til auðlindarinnar

BB-fréttir greina frá því  í dag að Kambur á Flateyri hafi sagt 9 konum upp í fiskvinnslunni og að ástæðan sé hagræðing. Jafnframt kemur fram að bátur sem hafi lagt þar upp með 220 tonna þorskígildi hafi verið seldur ásamt aflaheimildum til Grindavíkur. Þetta sýnir hversu berskjaldað fólk í landi er, bæði sjómenn og fiskvinnslufólk og íbúar viðkomandi svæða, fyrir því að aflaheimildir geti fyrirvaralaust verið seldar burtu úr héraði.

Auðvitað reyna útgerðamenn á Vestfjörðum sem eru tryggir sínum byggðarlögum að kaupa og leigja til sín kvóta eftir mætti til að halda uppi atvinnu og taka þar mikla áhættu. Ef leiguverð á þorskígildi er komið yfir 200 kr á kíló og kaupverðið allt að 3000 krónum á kílóið þá hlýtur boginn að vera spenntur. Engin atvinnugrein getur staðið undir slíkum fjármagnskostnaði til lengdar. Stærst er áhættan hjá íbúum sjávarbyggðanna sem fá litlu sem engu ráðið um atvinnuöryggi sitt og afkomu.

Að blása nýjum byr  í seglin

Í bréfi sem Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði skrifaði forsætisráðherra 5. mars síðastliðinn og sendi okkur þingmönnum kjördæmisins afrit af, kallar hann eftir hugarfarsbreytingu hjá stjórnvöldum hvað varðar atvinnulíf og uppbyggingu á störfum á Vestfjörðum: „Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar leggur áherslu á að algera hugarfarsbreytingu þarf og pólitíska samstöðu hjá stjórnvöldum til að snúa við óheillaþróun síðustu ára …“ Ég tek heilshugar undir þau orð bæjarstjórans. En hver býst við hugarfarsbreytingu frá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins er setið hafa að völdum í 16 ár samfleytt?

Það er forgangsmál að treysta atvinnuöryggi sjávarbyggðanna og festa skilgreind fiskveiðiréttindi við byggðirnar. Sjávarútvegurinn er undirstaða atvinnulífs og búsetu á Vestfjörðum. Fái íbúar sjávarbyggðanna  að njóta auðlinda sinna munu nýir og ferskir vindar blása þeim auknum byr í seglin, þjóðinni allri til heilla.

Ég óska Strandamönnum sem og landsmönnum öllum gleðilegs sumars.

Jón Bjarnason þingmaður Vinstri- grænna í Norðvesturkjördæmi