05/10/2024

Stjórnsýslan á strandir.saudfjarsetur.is?

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is gerði á dögunum nýkjörnum sveitarstjórnum á Ströndum tilboð um samvinnu við að efla upplýsingaflæði frá sveitarstjórnum til íbúa. Sveitarfélögunum býðst þannig öllum að birta á vefnum ýmsar lifandi og síbreytilegar upplýsingar sem þau hafa áhuga á að koma á framfæri, auk fundargerða hreppsnefndar og annarra nefnda. Hugmyndin er að í tenglastikuna efst á vefnum strandir.saudfjarsetur.is komi tengill sem heiti Stjórnsýslan og þar undir geti menn valið hvert sveitarfélag sem kaupir þjónustuna.

Undir tenglinum Stjórnsýslan sé síðan hægt að nálgast fundargerðir hreppsnefndar og ýmissa nefnda, tilkynningar, upplýsingar um laus störf, nefndir, stofnanir sveitarfélagsins og starfsfólk, ýmis eyðublöð og ýmislegt annað sem áhugi er á að setja inn og nauðsynlegt þykir að aðgengilegt sé á vefnum í nútímasamfélagi. Starfsfólks sveitarfélagsins sendir þá skjölin á tölvutæku formi til ritstjórnar vefjarins sem setur efnið inn. 

Engin viðbrögð hafa enn borist við erindinu til sveitarfélaganna, enda eru fyrstu fundir nýrra hreppsnefnda á Ströndum ekki haldnir fyrr en um þessar mundir.