14/09/2024

Stebbi og Eyfi með tónleika í Bragganum

Það er nóg um að vera í menningarlífinu á Ströndum. Næstkomandi fimmtudagskvöld verða fjórar landsþekktar söngkonur með stórtónleika í Bragganum á Hólmavík en næstkomandi þriðjudag er komið að karlpeningnum, en þá munu þeir Stefán Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson – Stebbi og Eyfi – stíga á stokk og halda tónleika í Bragganum. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og verða eflaust frábær skemmtun fyrir alla aldurshópa. Í lok síðasta árs gáfu þeir félagar út geisladiskinn Nokkrar notalegar ábreiður og ferðuðust víða um landið til að kynna plötuna sem inniheldur m.a. lög eins og Góða ferð, Pínulítið lengur og nýja útgáfa lagsins Draumur um Nínu en það lag markaði einmitt upphaf samstarfs þeirra á sínum tíma. Þessi lög fá án efa að hljóma í Bragganum á þriðjudagskvöldið.