27/02/2024

Gagnvegur – nýr prentmiðill á Ströndum

Í vikunni hefst útgáfa nýs prentmiðils á Ströndum og hefur hann fengið heitið Gagnvegur. “Nafnið er sótt í hina fornu og rammíslensku speki hávamál,” segir Kristín Sigurrós Einarsdóttir á Hólmavík, sem gefur út hið nýja blað. Að sögn Kristínar verður blaðið gefið út vikulega og mun innihalda sjónvarpsdagskrá, auglýsingar og fréttir úr héraðinu og verður því einhvers konar blanda af héraðsfrétta- og dagskrárblaði.

Kristín segist hafa gengið með hugmyndina að blaðinu í kollinum nánast síðan hún flutti til Hólmavíkur fyrir sjö árum, en þá hafði hún starfað við afleysingar á Skessuhorni í Borgarnesi. “Mér hefur fundist vanta prentmiðil síðan ég kom hingað. Héraðsfréttablöð eru afar mikilvæg miðlar að mínu mati. Þrátt fyrir að við höfum öflugan vefmiðil, strandir.saudfjarsetur.is, held ég að prentmiðill sé góð viðbót í fjölmiðlaflóruna.

Ég fór síðan á námskeiðið Brautargengi í fyrrahaust og fékk þá kærkomið tækifæri til að gera viðskiptaáætlun og þróa hugmyndina áfram. Auk þess var það mikill stuðningur að kynnast konum sem voru í svipuðum hugleiðingum og eru sumar komnar í rekstur af fullum krafti. Nú tel ég að “minn tími sé kominn”, ég hef minnkað við mig kennslu og hyggst sinna blaðinu og annarri verktakavinnu af fullum krafti, sagði Kristín.

Fyrirtæki hennar, sem hún rekur á eigin nafni og kennitölu, mun einnig taka að sér ýmis konar önnur verkefni. “Ég er fjárfesti í öflugum prentara og sé fram á að geta prentað hluti eins og boðkort, bæklinga, ljósmyndir, sönghefti og fleira. Einnig langar mig að leita fyrir mér með önnur verkefni, t.d. á sviði fjarvinnslu. Ég held að það sé nokkuð óplægður akur. Ég mun sinna þessu í a.m.k. hálfu starfi og finnst um leið ánægjulegt að geta skapað starf fyrir mig og svæðið sem ég bý á. Vonandi vindur þetta upp á sig, en það fer vissulega alveg eftir því hvernig viðskiptavinir taka nýju blaði og annarri þjónustu sem ég býð upp á.”

Aðspurð segir Kristín að það hafi verið kominn tími til að söðla um og prófa eitthvað nýtt.  “Ég er frekar nýjungagjörn manneskja og finnst auk þess óskaplega gaman að vinna og hef fjölbreytta starfsreynslu og bakgrunn. Ég var búin að kenna í akkúrat tíu ár, en var ekki tilbúin til að hætta alveg. Þetta er raunar draumastaða, að geta verið opinber starfsmaður með tryggar tekjur og í skemmtilegu starfsumhverfi á morgnana og vera svo eigin herra eftir hádegi. Ég hef alltaf verið frekar óhrædd að hrinda hugmyndum mínum í framkvæmd og hingað til hefur það ekki kostað mig stóra skandala.”

Gagnvegi verður dreift frítt á öll heimili í Strandasýslu, vikulega. “Síðan dreymir mig um að stækka dreifingarsvæðið og er þá fyrst að hugsa  um Reykhólasveitina. Raunar vísar nafnið dálítið í tengingu okkar við það svæði, með tilvonandi bættum samgöngum”, sagði Kristín að lokum.

Kristín sinnir einnig fréttaöflun fyrir Bændablaðið, Morgunblaðið og Svæðisútvarp Vestfjarða og er tengiliður fyrir Fræðslumiðstöð Vestfjarða.