Categories
Viðtöl

Inga á Hóli Strandamaður ársins 2008

Ingibjörg Sigvaldadóttir hefur verið kosin Strandamaður ársins 2008 á vefnum strandir.saudfjarsetur.is. Ingibjörg, eða Inga á Hóli eins og hún er jafnan kölluð, er kennd við Svanshól í Bjarnarfirði á Ströndum en dvelur núorðið á Heilbrigðisstofnuninni á Hólmavík. „Og fyrir hvað?“ varð Ingu að orði þegar Kristín S. Einarsdóttir ritstjóri Gagnvegar sem á hugmyndina að þessari árlegu kosningu heimsótti hana og færði henni tíðindin ásamt dálitlum glaðningi og viðurkenningarskjali. Ingibjörg sigraði í kosningunni með töluverðum yfirburðum en kosið var á milli hennar, Bjarna Ómars Haraldssonar og Sigurðar Atlasonar í síðari umferðinni á strandir.saudfjarsetur.is.

Inga kvaðst ekki hafa fylgst með kosningunni, en var þó kunnugt um að Sverrir Guðbrandsson hefði verið fyrsti Strandamaður ársins og síðan hefðu verið Drangsnesingar í efsta sæti, ásamt Guðbrandi Einarssyni frá Broddanesi. Kjósendur voru hins vegar ekki í vafa um hvers vegna þeir vildi kjósa Ingu og segja hana vera „hafsjó fróðleiks, uppsprettu af visku um svæðið, fólkið og menninguna.“ Jafnframt segir að hún sé „eldgömul, eldhress, fordómalaus, fróð og skemmtileg“. Eins segja þeir sem hana tilnefndu að það eigi að „heiðra hana Ingu og taka hana sem fyrirmynd“ og ennfremur að hún sé „dugnaðarforkur“, „bara snillingur“ og „hress, kát og hörkunagli“.

Inga, sem er 96 ára gömul, þakkar háan aldur það að hafa „alltaf borðað það sem vísindin segja að sé óæti, það er bara íslenskur matur sem hefur verið borðaður árum saman.“ Heilsan er líka nokkuð góð: „Það er náttúrulega margt farið að bila, sjón og heyrn og síðan hef ég gengist undir uppskurði, svona eins og gerist og gengur.“ Þegar ritstjóri slær því fram að Strandamenn verði ef til vill allra manna elstir gefur Inga lítið út á það, telur það frekar vera tilviljun, en segist þó eiga frænku á Ísafirði sem er 104 ára.

580-ingibjorg-sigvaldadottir2

Synir Ingibjargar og eiginmanns hennar, Ingimundar Ingimundarsonar, sem nú er látinn, eru fimm; tvíburarnir Ingimundur og Sigvaldi, Ólafur, Svanur og Pétur. Barnabörnin eru orðin þrettán ásamt fimmtán langömmubörnum. Sjálf ólst hún upp á Sandnesi við Steingrímsfjörð ásamt fjórum systkinum. Systkinin voru allt í allt átta en fjögur þeirra dóu úr barnaveiki áður en Inga fæddist. Á Sandnesi er hún alinn upp í mikilli nálægð við sjóinn. „Mig vantaði sjóinn á Svanshól, en það er svona, það er ekki alltaf hægt að vera á óskastöðum.“

Ingibjörg gefur ekki mikið út á að það hafi verið erfitt að stunda búskap í Bjarnarfirði á þessum tíma: „Það þurfti alltaf að vinna mikið, það fylgir búskapnum.“ Inga og Ingimundur hættu búskap um 1984 og fluttu þá í lítið íbúðarhús á jörðinni. Þá tóku Ólafur sonur þeirra og kona hans Hallfríður F. Sigurðardóttir við, en Ólafur átti erfitt með búskapinn sökum ofnæmis fyrir heyi og skepnum: „Hann átti erfitt með að sinna sauðburði og eiginlega varð ég alveg hissa þegar honum datt í hug að búa. Hún segir Ólaf og Hallfríði samt hafa haft mikið yndi af skepnum. Hann kom til að mynda frá Noregi og hittist svo á að við vorum inni í fjárhúsunum. Rolla sem hann átti, þekkti hann bara á talinu. Ég var að láta renna vatn og sá að hún fór að kippast svona til og ruddist gegnum hópinn alveg til hans. Við vissum að hændust að honum skepnum. Og við vissum það eftir á að hann hafði köggla í vasanum og var að gefa þeim!“

Ólafur og Hallfríður (Lói og Halla) bjuggu nokkur ár á Hólmavík með börnin þeirra voru í skóla þar en búa nú á Svanshóli. Ólafur er smiður en Halla starfar við skógrækt auk þess sem hún vinnur í eldhúsi Heilbrigðisstofnunarinnar á Hólmavík. Þá eru tvö af börnum þeirra búsett á Ströndum og barnabörn, en aðrir afkomendur eru búsettir svona vítt og breytt, segir Inga.

Síðustu þrjú árin hefur Inga að mestu dvalist á Heilbrigðisstofnuninni á Hólmavík en skreppur þó í Bjarnarfjörðinn af og til. Fjóra vetur dvaldi hún í húsi Magnúsar Jóhannssonar við Höfðagötu og dvaldi þá í húsi sínu á Svanshóli á sumrin. Hún segir mikið hafa breyst í Bjarnarfirði síðan hún var þar við búskap, þá hafi verið búið með skepnur á öllum bæjum og fjölmenni á hverjum bæ. Íþróttir hafi verið mikið stundaðar, boltaleikir eða sund flest kvöld yfir sumarið.

Þrátt fyrir að sjónin sé farin að daprast segist Inga ennþá fást við hannyrðir til dægrastyttingar, og saumar krosssaum í púða. Auk þess tekur hún þátt í félagsstarfi eldri borgara og mætti til að mynda í spilamennsku með þeim síðast liðinn sunnudag. Aðspurð um hvort henni finnist ekki sumir eldri borgaranna vera ungir brosir hún við og segist hæglega gæti verið mamma margar þeirra.

Inga segist vera hætt að geta lesið nema  fyrirsagnir dagblaðanna en hún fylgist með útvarpi og sjónvarpi og er vel að sér í þjóðmálunum. „Ég er þó litið gefin fyrir kvikmyndir.“ Hún segir kreppuna núna ekkert í líkingu við það sem var á millistríðsárunum: „Þá var allt skammtað, hér hafa flestir nóg að býta og brenna ennþá.“ Það þarf ekki að staldra lengi við hjá þessari öldruðu og lífsglöðu konu til að sannfærast um að taka beri hana til fyrirmyndar og það er auðvelt að gera sér í hugarlund hversu mikið við hin gætum lært af þeim sem hafa lifað tímanna tvenna.

 580-ingibjorg-sigvaldad1

Ingibjörg Sigvaldadóttir á Hóli – ljósm. og viðtal: Kristín S. Einarsdóttir