20/04/2024

Dansleikur á Drangsnesi um helgina

Hljómsveitin Strandamenn leikur á dansleik í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi næstkomandi laugardag, 8. september. Hljómsveitin kom fyrst fram á Bryggjuhátíð 2007 og hefur leikið tvisvar síðan á Malarkaffi á Drangsnesi. Hljómsveitinni hefur heldur betur bæst liðsstyrkur á síðustu vikum. Söngvarinn landsþekkti Ari Jónsson mun syngja með hljómsveitinni og Vilhjálmur Guðjónsson, sem spilar á nánast öll hljóðfæri en er þekktastur sem gítarleikari, mun spila á gítar. Aðrir meðlimir hljómsveitarinnar eru Svanur Hólm Ingimundarson á hljómborði, Kristján Magnússon á saxófón og harmonikku og Björn Guðjónsson á gítar. Húsið opnar kl. 22.00 og ballið stendur til kl. 03.00.

Nýtt og glæsilegt kaffihús á Drangsnesi, Malarkaffi, verður opið frá kl. 20.00 til  kl. 23.00. Það er upplagt að fara þangað og fá sér hressingu fyrir dansleikinn.