13/10/2024

Spurningakeppni héraða á Hólmavík

Sauðfjársetur á Ströndum stendur fyrir stórskemmtilegri spurningakeppni milli fjögurra nágrannahéraða fimmtudaginn 29. júní í Félagsheimilinu á Hólmavík. Keppnin hefst kl. 20:00 stundvíslega. Keppnin er sú fyrsta sinnar tegundar á Ströndum, en undanfarin ár hafa heimamenn keppt sín á milli við góðar undirtektir. Keppnin markar einnig upphaf bæjarhátíðarinnar Hamingjudaga á Hólmavík ásamt fleiri atburðum á fimmtudeginum. Liðin sem taka þátt eru: Strandamenn sem ætla sér væntanlega stóra hluti á heimavelli, Dalabúar sem mæta með frækið lið vaskra manna, Húnvetningar renna með gáfurnar norður á Strandir og Borgfirðingar úr UMSB mæta með ungmennafélags- og baráttuanda í brjósti.

Spyrill og höfundur spurninga er Arnar S. Jónsson frá Steinadal, en hann hefur getið sér gott orð fyrir slíkt hlutverk í fyrri keppnum á Ströndum. Arnar lofar léttri, skemmtilegri og áhorfendavænni keppni sem mun þó reyna örlítið á þrautreynda huga keppendanna.

Dregið verður í viðureignir á staðnum og sigurlið keppninnar fær vegleg verðlaun. Líklegt er að tapliðin fái að taka eitthvað með sér heim líka. Aðgangseyrir að spurningakeppninni er kr. 1.500 fyrir sextán ára og eldri og er kaffi og kökudiskur þar innifalinn.