19/04/2024

Skemmti- og spunakvöld Leikfélagsins

Leikfélag Hólmavíkur stendur fyrir skemmtikvöldi á föstudagskvöldið, 29. desember kl. 20:30, í félagsheimilinu á Hólmavík. Þar verður gleðin við völd og auk ýmissa skemmtiatriða verður keppt í leikhússporti eða spunaleik. Þetta er þriðja árið í röð sem félagar í Leikfélagi Hólmavíkur reyna með sér í slíkri keppni. Sérvalin dómnefnd dæmir um frammistöðu liðanna eftir leiktækni, söguþræði og skemmtigildi, en áhorfendur fá hins vegar að velja Spunatröll leikfélagsins úr hópi keppenda. Núverandi Spunatröll Leikfélags Hólmavíkur er Jón Jónsson, en áður hefur Bjarki Þórðarson hampað þeirri heiðursnafnbót.

Liðið Hjónakornin sem samanstóð af hjónunum Jóni Jónssyni og Ester Sigfúsdóttur á Kirkjubóli sigraði í keppninni í 2005, en liðið The singing brothers sem innihélt Arnar S. Jónsson og Jón Jónsson sigraði árið áður.

Gott væri ef þeir áhugamenn um leiklist sem vilja taka þátt í spunaleiknum myndu skrá sig fyrirfram hjá Salbjörgu Engilbertsdóttur, gjaldkera Leikfélags Hólmavíkur, í síma 451-3476 eða 865-3838. Dregið er í lið á staðnum. Fyrri árin hafa verið tveggja manna lið, en ef þátttaka verður góð verða fleiri saman í liði.  

Allir eru hjartanlega velkomnir á skemmtunina sjálfa.