24/07/2024

Samkeppni um byggðamerki

Sveitarstjórn Strandabyggðar efnir nú til samkeppni um byggðamerki fyrir sveitarfélagið. Leitað er að merki sem er ólíkt öðrum byggðamerkjum og sýnir um leið sérstöðu eða einkenni sveitarfélagsins. Öllum er heimilt að taka þátt í samkeppninni og sagt að vegleg verðlaun séu í boði fyrir það byggðamerki sem best uppfyllir fyrrgreind skilyrði. Upplýsingar eru veittar á skrifstofu Strandabyggðar (s. 451-3510) og þangað skal skila tillögum í síðasta lagi 29. september.  


Skila þarf inn teikningum að byggðamerkinu í tveimur stærðum, annars vegar 13×10 sm og hins vegar 2,7×2 sm, bæði í lit og í svarthvítu. Skrá þarf sérstaklega litanúmerin sem notuð eru í teikningunni. Einnig þarf að fylgja með á sér blaði útskýring á merkinu, hámark 250 orð og afrit af teikningunum á grafísku, tölvutæku formati. Skila á tillögunum undir dulnefni en rétt nafn skal fylgja í merktu, lokuðu umslagi. Innsendar teikningar mega ekki hafa sést áður á prenti og sú teikning sem valin er verður eign sveitarfélagsins og öðrum algjörlega óheimilt að nota hana.

Dómnefnd skipa Kristín Völundardóttir, Sigríður Óladóttir, Guðmundur B. Magnússon, Jón Jónsson og Kristín S. Einarsdóttir.