06/05/2024

Drekktu Betur í fyrsta sinn á Hólmavík

Föstudagskvöldið 11. apríl nk. verður í fyrsta skipti haldin svokölluð Drekktu Betur keppni á Hólmavík. Keppnin verður á Café Riis og hefst kl. 21:30, en húsið opnar kl. 21:00. Spyrill og spurningahöfundur er Gunnar Melsted og verða spurningarnar almenns eðlis. Keppnir af þessu tagi eru vinsælar víða og m.a. hittast Ísfirðingar vikulega á Langa Manga í þessum tilgangi. Þeir Gunnar B. Melsted og Arnar S. Jónsson á Hólmavík hafa forgöngu um keppnishaldið, en að þeirra sögn er Drekktu Betur frábær skemmtun, ekki bara fyrir bjórunnendur, heldur líka fyrir þá sem vilja eiga skemmtilega kvöldstund með góðu fólki. Hér fyrir neðan gefur að líta reglur keppninnar, en þar sést m.a. að enginn þarf að fara upp á svið til að svara spurningum.

Gunnar og Arnar vildu einnig koma því á framfæri að þeir vonast til að sjá sem flesta, enda sé þarna um að ræða atburð sem getur orðið að skemmtilegri hefð ef vel gengur og aðsókn verður góð fyrstu skiptin. Fátt sé notalegra heldur en að sitja í pakkhúsinu á Café Riis með göróttan drykk í hendi og bros á vör innan um gott fólk. Ekki skemmi fyrir að geta tekið þátt í skemmtilegri spurningakeppni og eiga möguleika á veglegum vinningi frá Café Riis. Café Riis mun einnig hafa opið í pizzur á föstudaginn, en nánari tímasetning á þeirri opnun verður auglýst síðar.

Hér gefur að líta reglur keppninnar:

1) Keppnin gengur undir nafninu Drekktu betur – á Hólmavík.

2) Spyrill mætir með 30 spurningar í farteskinu.

3) Gestir mæta með góða skapið og pening fyrir kaffi og/eða bjór. Þeim er ætlað að fá sér sæti og skemmta sér vel allt kvöldið.

4) Gestir skipta sér í keppnislið. Hvert lið inniheldur tvo einstaklinga.

5) Spyrill spyr salinn 30 spurninga og keppnislið skrifa svör sín við spurningunum á þar til gert blað, jafnóðum og spurt er. Lið mega ekki skiptast á svörum. Gjamm og frammíköll sem innihalda svör eru bönnuð. Einnig er bannað að nota síma, internet eða alfræðirit meðan á keppni stendur.

6) Þegar spyrill hefur lokið við að lesa upp spurningarnar fá keppnislið smá tíma til að fara yfir svör sín. Eftir það skiptast lið á svarblöðum og spyrillinn les upp rétt svör við spurningunum. Keppnislið merkja við rétt eða rangt svar á svarblaðinu og telja saman rétt svör áður en liðin skiptast aftur á blöðum. Þá eru öll svarblöð komin til réttra eigenda á ný.

7) Því sem næst er farið yfir hvaða lið eru stigahæst. Til að eiga möguleika á bjórkassanum sem er í verðlaun, þarf sigurliðið að vera með minnst 15 svör rétt. Nái ekkert lið 15 réttum svörum bætist kassinn við næstu keppni og verða þá tveir kassar í boði.

8) Ef lið eru jöfn fer fram bráðabani, alveg þar til eitt lið stendur uppi sem sigurvegari. Þá er fyrst spurt 5 spurninga og reynt að knýja fram sigurvegara með flestum svörum réttum. Ef ekki fæst sigurlið úr þessum 5 spurningum skal spyrja þriggja spurninga að auki. Ef ekki fást niðurstöður eftir þá lotu eru keppnisliðin bersýnilega jafnsterk og neyðast því til að deila með sér bjórkassanum.

9) Í hverri keppni er Bjórspurning. Þau lið sem ná að svara þeirri spurningu rétt eiga þá inni tvo litla bjóra á barnum. Fram kemur eftir keppni hvaða lið eiga inni bjóra.

10) Spyrill er alvaldur og dómar hans um vafamál í spurningu eða svari eru óumdeilanlegir. Ekki er hægt að bera upp formlega kvörtun eftir keppni, en svekktum keppendum er bent á að hægt er að drekkja sorgum sínum á barnum.