26/04/2024

Nýr framkvæmdastjóri Sauðfjárseturs

Arnar S. Jónsson frá Steinadal hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri Sauðfjárseturs á Ströndum. Hann tekur við starfinu af Jóni Jónssyni á Kirkjubóli sem hefur verið forsvarsmaður Sauðfjársetursins frá því það hóf starfsemi sumarið 2002. Sauðfjársetrið hefur haldið úti sögusýningu um sauðfjárbúskap með áherslu á Strandir í félagsheimilinu Sævangi, en einnig verið mjög áberandi í menningarlífi á Ströndum og staðið fyrir fjölmörgum uppákomum og skemmtunum síðustu árin.

Reiknað er með að starfsemi Sauðfjársetursins verði efld verulega á næstu misserum og mikill hugur er í aðstandendum þess að ráðast í ýmis verkefni sem lengi hafa verið á döfinni. Þar má meðal annars nefna endurnýjun sýningarinnar, markvissa heimildasöfnun, útgáfuverkefni og fleira.

Stjórn Sauðfjársetursins skipa Jón Jónsson á Kirkjubóli, Matthías Lýðsson í Húsavík og Sverrir Guðbrandsson á Hólmavík.