29/03/2024

Nýr diskur með Ragga Bjarna

Vel sjóaður er heiti á nýjum diski söngvarans Ragga Bjarna sem kom út 11. júlí. Í tilefni útgáfunnar færði söngvarinn góðkunni Einari K. Guðfinnssyni sjávarútvegsráðherra eintak, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Á disknum er að finna fjórtán sjómannalög sem Raggi syngur ýmist einn eða með öðrum, m.a. Ellý Vilhjálms sem lést fyrir áratug. Óvenjulegri upptökutækni er beitt til að leiðir þeirra liggi saman á ný. Þá syngja Helena Eyjólfs og Þorvaldur Halldórsson einnig með Ragga. 

Í þessu sjómannalagasafni er brugðið upp þverskurði af þeim lögum sem ómað hafa í eyrum landsmanna um langa tíð. Diskurinn er tileinkaður öllum íslenskum sjómönnum.

Eins og kunnugt er mun Raggi Bjarna, sem er ættaður af Selströndinni, heimsækja Strandamenn og koma fram á Borðeyrarhátíð sem haldin verður síðustu helgina í júlí.

Á myndinni afhendir Raggi Bjarna, Einari K Guðfinnssyni fyrsta eintakið af Vel sjóaður.