20/04/2024

Nettengingar Snerpu fluttar

Eins og mörgum Strandamanninum er kunnugt hafa verið í gangi vandamál á netsambandi Snerpu á Hólmavík og Drangsnesi undanfarnar vikur hefur sem hefur lýst sér í því að sambandið verður oft óþægilega hægvirkt. Nú hafa verið gerðar breytingar á sambandinu á milli Ísafjarðar og Hólmavíkur sem vonast er til að leysi þetta vandamál. Að sögn Björns Davíðssonar hjá Snerpu hafa verið í gangi margvíslegar prófanir á búnaði og samböndum til að komast fyrir þetta vandamál, m.a. var fyrir rúmum mánuði skipt út öllum búnaði á Hólmavík til að útiloka að bilun gæti verið í honum og settur upp öflugari búnaður. Það hafði engin áhrif og ýmsar tilraunir sem gerðar hafa verið í samstarfi við starfsmenn Símans hafa heldur ekki borið árangur að því er virðist.


Eftir ítarlegar mælingar Snerpu var ljóst að sambandið var ekki að bera þá umferð sem það er gefið upp fyrir en starfsmönnum Símans hefur ekki tekist að finna hvers vegna. Seinnipart þriðjudags prófuðu starfsmenn Símans að færa sambandið þannig að í stað þess að fara beint á milli Ísafjarðar og Hólmavíkur er sambandið sent fyrst um Búðardal og svo austan megin frá til Hólmavíkur. Við þetta virðist afkastagetan hafa farið í lag en þó ber að geta þess að Snerpa hefði viljað fá stærri línu sem er er ekki fáanleg. Vegna þessa hefur verið tekin sú ákvörðun að á Hólmavík og Drangsnesi verður einungis í boði 256 kbps hraði en 768 kbps hraði verður ekki til sölu fyrr en Síminn getur útvegað stærri línu.

Björn sagði einnig að hann hefði orðið fyrir miklum vonbrigðum með það hversu hægt hefði gengið hjá Símanum að bregðast við vandamálinu. „Okkur finnst ansi hart að þurfa að bíða svona lengi eftir því að þeir bregðist við kvörtunum og enn verra er þegar okkur er neitað um stækkun á sambandinu til Hólmavíkur á þeim grundvelli að burðargeta sé ekki til og svo er engin áætlun í gangi um að auka þar við. Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því að Hólmvíkingar fá ekki ADSL í bráð, og ég óttast mest að þegar Síminn verður seldur að þá eigi landsbyggðin heldur betur eftir að verða útundan í framkvæmdum hjá Símanum. Ég tel enn að við Vestfirðingar séum annars flokks notendur í augum Símans. Það er alveg ljóst að það þyrfti að koma strax upp ljósleiðarasambandi við Hólmavík og um Djúp, kostnaðurinn við það er innan við 5% af hagnaði Símans á síðasta ári, en því miður er engin svör að fá um það hvenær það gæti orðið. Ég vona samt að með þessum ráðstöfunum verði nú léttbærara að nota sítengt Internetsamband á Ströndum og bið Strandamenn velvirðingar fyrir hönd Snerpu á þeim óþægindum sem þessi vandamál hafa haft í för með sér."

Að lokum óskaði Björn eftir því við strandir.saudfjarsetur.is að fram kæmi að þeir sem enn telja netsamband sitt vera óeðlilega hægvirkt láti vita af slíku og verður málið þá athugað. Best er að hafa samband við Sigurð M. Þorvaldsson umboðsmann Snerpu á Hólmavík, netfang hans er smt@snerpa.is eða við Snerpu í netfanginu snerpa@snerpa.is.