26/04/2024

Bryggjuhátíðin 22. júlí

Bryggjuhátíð á Drangsnesi verður haldinn í 11. sinn laugardaginn 22. júlí. Dagskráin er tilbúin og verklegar framkvæmdir fyrir hátíðina komnar í fullan gang. Allan daginn og langt fram á kvöld eru einhverjir að slá, því í þessari rigningartíð sem verið hefur undanfarið sprettur grasið sem aldrei fyrr. Lofthræddir sem aðrir klífa þök og veggi með málningarpensla að vopni. Bökunarilminn leggur út úr hverri gátt, því nú skal taka vel á móti gestum. Bryggjuhátíðarbolirnir eru komnir í sölu og rjúka út.

Nú eru bæjarhátíðir á hverri helgi um land allt og yfir okkur dynur í fjölmiðlum fréttir af slæmri umgegngni fólks um hátíðarsvæði víða. Þessa neikvæðu hlið hátíðarhalda þekkja aðstandendur Bryggjuhátíðar á Drangsnesi hreint ekki. Bryggjuhátið hefur öll þessi ár verið sérstaklega heppin með gesti. Þeir hafa verið sérlega jákvæðir og skemmtilegir. Margir þeirra hafa komið á hverju ári og eru sumir komnir á vinnulista hátíðarinnar. Vilja taka fullan þátt og er það ómetanlegt að eiga svo góða að. Umgengni bæði um tjaldsvæði og annarsstaðar er þannig að varla sér rusl nokkurs staðar á sunnudeginum. Svona gesti vilja allir fá í heimsókn aftur og aftur. Dagskrá Bryggjuhátiðar fylgir hér með, en hana verður einnig hægt að nálgast hér á vefnum fram að Bryggjuhátíð.

Dagskrá Bryggjuhátíðar á Drangsnesi 22. júlí n.k

Kl. 8.30 Gönguferð yfir Bæjarskarð. Þeir allra hressustu leggja upp frá Kaldrananesi (Nesströnd) og ganga í fylgd með Önnu Ármannsdóttur, yfir Bæjarskarð og í Drangsnes.

Kl. 10-11:30 Dorgveiði í Kokkálsvík. Allir krakkar að veiða og fá allir viðurkenningarskjöl og mestu veiðiklærnar verðlaun sem verða veitt á Söngvarakeppninni. Pabbar og mömmur og afar og ömmur mega að sjálfsögðu
hjálpa til.

Grímsey er náttúruperla og verða stöðugar ferðir þangað út með Sundhana fram eftir degi.

Kl. 12.30 Sjávarréttasmakk  við Fiskvinnsluna Drang. Þarna er ýmislegt girnilegt sjávarfang að smakka – sumt gamalkunnugt og annað nýstárlegt en allt ókeypis. Kristján frá Gilhaga leikur fyrir gesti létta harmonikkutónlist og krakkar fá andlitsmálningu.

Kl 14. Tónleikar: Ari, Jón Pétur og Atli Jónssynir munu spila á planinu  við Fiskvinnsluna og rifja upp gamla góða takta en þeir eru allir löngu landsþekktir tónlistarmenn. Þeir sem muna eftir Roof Tops og Dátum og fleiri landskunnum hljómsveitum  kannast við þessa tónlistarmenn. Svo eru aðrir sem muna eftir þeim sem sonum Nabba og Lóu frá  Drangsnesi. Þeir munu einnig skemmta á kvöldskemmtuninni.

Kl. 13- 17 eru sýningar í skólanum  og Framtíðinni opnar. Myndlist og sýningar.  Í skólanum sýnir listakonan Mireyja Zamper og þar eru einnig gömlu ljósmyndirnar til sýnis og kaffihúsið verður opið. Fyrir utan
Forvaða í Framtíðinni er Grásleppusýning.
Í Sundlaug Drangsness eru tvær sýningar. Halldór Hjartarson með útskurðarverk og Árni Baldursson með ljósmyndir úr daglega lífinu. Sýningarnar í Sundlauginni eru opnar á opnunartíma sundlaugar.

Nemendur Dragnsnesskóla 5-15 ára eru með ljósmyndasýninguna Staldraðu við og er hún víða um þorpið. Þetta eru myndir sem þau hafa tekið nú í sumar.

Strandahestar eru á svæðinu og leyfa krökkum að skreppa á bak og síðan eru hoppukastalar á túninu fyrir ofan búðina.

Kl 15. Árlegur vináttulandsleikur milli Hólmavíkur og Drangsnes á fótboltavellinum.

Kl. 16.30 Söngvarakeppni í samkomuhúsinu Baldri. Ingó  Idol og Veðurguðirnir spila undir og aðstoða. Skráið ykkur hjá Halldóru í síma

Kl. 18 – Grillveisla við samkomuhúsið. Grilluð lambalæri og pyslur. Verðinu er still í hóf og kostar 1500 fyrir manninn. Börn yngri en 10 ára fá frítt. Öl er selt sér.

Kl 20 – Kvöldskemmtun í Baldri og ókeypis aðgangur meðan húsrúm leyfir – þröngt mega sáttir sitja. Þessi skemmtun er einstök og þar stjórnar gleðinni Ragnar Torfason en auk hans koma ýmsir aðrir fram með söng og dans. Strax að lokinni kvöldskemmtun syngjum við okkur inn í nóttina við varðeldinn.

Kl. 23:30 er Bryggjuhátiðarballið þar sjá Ingó og Veðurguðirnir um fjörið. Þeir sem fóru á ballið með þeim í fyrra ætla allir að koma aftur. 

Næg tjaldstæði eru í boði og kostar helgin frá föstudegi til sunnudags 1000 kr á tjald.