26/04/2024

Myndarlegur styrkur Kaupþings vegna ferðar Tónskólans á Hólmavík

Nú í nokkur ár hefur Tónskólinn á Hólmavík ásamt Grunnskólanum á Hólmavík verið í samstarfi við tónlistarskóla og grunnskóla í vinabæjum Strandabyggðar á Norðurlöndum. Í ár er nemendum Tónskólans boðið til Hole í Noregi til að spila þar við opnum útisviðs sem vígja á í maí. Ferðir af þessu tagi eru dýrar og krefjast bæði undirbúnings og fjármagns og hefur Tónskólinn notið stuðnings og velvildar fyrirtækja og stofnana í bænum sem styrkt hafa hann myndarlega.

Hér sjást stúlkurnar þrjár sem valdar voru fyrir hönd Tónskólans á Hólmavík til að fara í þessa Noregsferð, taka á móti veglegum styrk að upphæð kr. 50.000.- úr hendi Elsu B. Sigurðardóttur skrifstofustjóra Kaupþings á Hólmavík. Þetta eru þær Agnes Björg Kristjánsdóttir, Anna Lena Victorsdóttir og Guðbjörg Júlía Magnúsdóttir sem allar eru 12 ára gamlar og nemendur í 7. bekk. Með þeim er Bjarni Ómar Haraldsson tónlistarkennari sem skipuleggur ferðina fyrir hönd Tónskólans á Hólmavík og fer einnig með sem fararstjóri.

 

Tekið við styrknum frá Kaupþingi – ljósm. Dagrún Ósk Jónsdóttir