14/09/2024

Kvikmyndatökur við Kotbýli kuklarans

bask4

Það var líf og fjör við Kotbýli kuklarans á Laugarhóli í Bjarnarfirði á miðvikudaginn. Þá fóru þar fram kvikmyndatökur vegna heimildamyndarinnar Baskavígin 1615 sem er viðamikið samstarfsverkefni spænskra og íslenskra aðila. Það er baskneskt kvikmyndafyrirtæki sem heitir Old Port Films sem stendur að gerð heimildamyndarinnar um Baskavígin sem eru betur þekkt sem Spánverjavígin í íslenskum sögubókum. Íslenska kvikmyndafyrirtækið Seylan er meðframleiðandi. Árið 2015 voru liðin 400 ár frá þessum sögulegu atburðum, þegar fjöldi hvalveiðimanna sem höfðu misst þrjú skip sín í Reykjarfirði á Ströndum voru drepnir af Íslendingum þar sem þeir fóru um Vestfirði í leit að nýjum farkosti. Heimildamyndin er tekin upp bæði á Spáni og Íslandi.

Baskavígin er viðamikil 90 mínútna mynd, með mörgum leiknum atriðum ásamt viðtölum við sérfræðinga. Margvísleg atriði verða tekin upp í Bjarnarfirði og Bolungarvík og víðar um land. Alls eru 20 spænskir leikarar og tökulið á landinu vegna þessa í hálfan mánuð og fjöldi íslenskra statista leggur þeim lið. Í upptökum við Kotbýli kuklarans í Bjarnarfirði voru til dæmis mættir Bjarnfirðingar, vegagerðarmenn sem vinna að vegagerð um Bjarnarfjarðarháls og félagar úr Leikfélagi Hólmavíkur í statistahlutverk.

bask8

bask5

bask9bask3

bask7bask  bask2

Ljósm. Jón Jónsson, Ester Sigfúsdóttir og Salbjörg Engilbertsdóttir