22/12/2024

Mokað í Árneshrepp

580-gjogur3

Á fréttavefnum www.litlihjalli.is kemur fram að Vegagerðin á Hólmavík er að láta moka norður í Árneshrepp og er mokað beggja megin frá. Að sögn Sverris Guðbrandssonar vegaverkstjóra hjá Vegagerðinni á Hólmavík er þetta aukamokstur sem Vegagerðin ber kostnað af og er framkvæmd vegna þess hversu snjólítið er. Svokölluð G-regla sem gildir um mokstur í Árneshrepp er skilgreind með eftirfarandi hætti á vef Vegagerðarinnar:

„Heimilt er að moka tvo daga í viku haust og vor á meðan snjólétt er. Hausttímabil er skilgreint til 1. nóvember og vortímabil frá 20. mars. Ástandið er skilgreint “snjólétt” þegar um er að ræða lítið snjómagn og færðarástand telst hvergi ófært, þungfært eða þæfingur á viðkomandi leið og þegar þjónustuaðgerðin felst eingöngu í hreinsun akbrautar með snjómokstursbíl.

Heimilt er að moka vegi sem falla undir G-reglu einu sinni í viku fram til 5. janúar á kostnað Vegagerðarinnar og eftir það einu sinni í viku gegn helmingagreiðslu frá sveitarfélagi þannig að fært sé fyrir fjórhjóladrifin ökutæki og/eða þegar kostnaður við þann mokstur er að jafnaði ekki meiri en þrefaldur sá kostnaður sem til fellur þegar leiðin telst snjólétt.“