20/04/2024

Húmorsþing á Hólmavík 17. mars

580-kar-kristinn2Þjóðfræðistofa stendur fyrir fjórða árlega Húmorsþinginu á Hólmavík laugardaginn 17. mars. Húmorsþingið er bæði vetrarhátíð og málþing um húmor sem fræðilegt viðfangsefni. Þar munu fræðimenn stíga á stokk og varpa ljósi á nýjustu rannsóknir og miðlun á húmor og um kvöldið verður skemmtun, spurningaþraut, uppistand og grínkeppni.

Á meðal þátttakenda verða Þorsteinn Guðmundsson, Ugla Egilsdóttir, Ari Eldjárn, Örn Úlfar Sævarsson, Bryndís Björgvinsdóttir, Íris Ellenberger, Ármann Jakobsson, Eva Þórdís Ebenezersdóttir, Kolbeinn Proppé, Leikfélag Hólmavíkur, Kristinn Schram, Kristín Einarsdóttir og nemendur í þjóðfræði við Háskóla Íslands.

Fjöldi fróðlegra erinda og ærslafullt uppistand verður meðal annars á boðstólnum auk kankvísrar barþrautar (pub quiz) undir stjórn Þorbjargar Matthíasdóttur og Matthíasar Lýðssonar. Þá verður kvikmyndasýning á heimildamyndinni Uppistandsstelpur og Leikfélag Hólmavíkur flytur grínsöngleikinn Með allt á hreinu. Auk þess verður efnt til grínkeppninnar sívinsælu Orðið er laust. Fólk er beðið um að tilkynna þátttöku í netfangiðdir@icef.is.