13/09/2024

Mikil spenna í spurningakeppninni

Síðastliðinn sunnudag fóru fram þrjár viðureignir í fyrstu umferð Spurningakeppni Sauðfjársetursins 2006. Þar mættu Strandamenn í Kennaraháskólanum liði nemenda við Grunnskólann á Hólmavík í fyrstu umferð og fóru leikar þannig að kennaranemarnir unnu 21-10. Önnur keppni kvöldsins var sú jafnasta í keppninni til þessa. Þar mættust lið Leikfélags Hólmavíkur og kennarar við Grunnskólann á Drangsnesi og var jafnt að lokum 20-20. Kom til bráðabana í keppninni þar sem Leikfélagið svaraði spurningunni rétt. Þriðja keppnin var milli Félagsmiðstöðvarinnar Ozon og kennara í Grunnskólanum á Hólmavík þar sem kennarar sigruðu 19-10.

Í lok kvöldsins var dregið í sex liða úrslitum sem fram fara þann 12. mars í Félagsheimilinu á Hólmavík. Þau lið sem mætast þar eru:

  • Strandamenn í Kennaraháskólanum – Hólmadrangur
  • Leikfélag Hólmavíkur – Sparisjóður Strandamanna
  • Kaupfélag Steingrímsfjarðar – Kennarar Grunnskólanum á Hólmavík

Búast má við jöfnum og spennandi keppnum þar sem sigurliðin þrjú komast áfram á úrslitakvöldið, ásamt því tapliði sem verður stigahæst.