24/07/2024

Mikil óánægja með samgönguáætlun

Veghefill í vandaÞrír hreppsnefndarmenn frá Hólmavíkurhreppi, ásamt sveitarstjóra, áttu fund með þingmönnum Norðvesturkjördæmis og Sturlu Böðvarssyni í hádeginu á miðvikudaginn. Þar voru samgöngumál til umræðu og mótmæltu Hólmvíkingar harðlega áðurnefndri samgönguáætlun, þar sem hreppsnefnd telur Arnkötludalinn löngu tímabæran. Komi ekki til sérfjármagn á tímabilinu telur hreppsnefnd að endurskoða þurfi forgangsröðun á svæðinu. 
 

Bent var á að vegurinn suður Strandir bæri ekki þá þungaflutninga sem um hann fara í dag og því síður aukna þungaflutninga sem fyrirséðir eru í nánustu framtíð. Þá var bent á hina mikla slysahættu á leiðinni suður Strandir, en frá Hólmavík í Brú eru 14 einbreiðar brýr og 13 merktar blindhæðir. Þingmönnum má því ljóst vera að þrátt fyrir veg um Arnkötludal eru endurbætur á veginum suður Strandir afar aðkallandi.

Loks var minnt á að mikil pressa er á sveitarstjórnir að stækka sveitarfélög, en slíkt er ógjörningur þar sem samgöngur bjóða ekki upp á slíkt, þar sem ekki er einu sinni malbikað á milli helstu þéttbýlisstaða.

Engin loforð voru gefin um endurskoðun þeirrar ákvörðunar að fara ekki í Arnkötludal fyrr en 2008. Þingmenn stjórnarandstöðu lýstu yfir vonbrigðum með þá ákvörðun en þingmenn stjórnarflokkanna standa fast við sína ákvörðun. Enginn þingmannanna vildi þó útiloka aukið fjármagn til sértækra aðgerða í vegamálum á Vestfjörðum en bentu þeir jafnframt á að ástandið væri einnig slæmt í norðausturkjördæmi.

Á hreppsnefndarfundi á þriðjudag samþykkti hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps harðorða ályktun um vegamál sem var með í farteskinu á fundinn:

"Hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps mótmælir harðlega hugmynd um Vegaáætlun 2004-2008, þar sem ekkert er áætlað af vegafé til Stranda fyrr en árið 2008 þrátt fyrir að vegurinn um Arnkötludal sé búinn að fara í umhverfis-og arðsemismat, sem sannar að hann sé arðbærasti valkosturinn í vegagerð sem völ er á fyrir leiðina Ísafjörður – Reykjavík.  Allur landflutningur fer nú um Djúpveg 61 frá Brú og er sá vegur ekki gerður fyrir slíka flutninga og orðinn ónýtur að stærstum hluta."