14/04/2024

Mikið hvassviðri á Ströndum

Veðurfræðingar landsins, sem oft hafa legið undir ámæli um að segja ósatt, höfðu sannarlega rétt fyrir sér með lægðina sem nú er að ganga austur yfir landið. Henni fylgir mikill vindur sem náði sennilega hámarki á Ströndum í morgunsárið, var t.d. 37 m/sek á Ennishálsi eftir 9 í morgun og nálægt 47 í kviðum. strandir.saudfjarsetur.is hafa ekki heyrt af útköllum björgunarsveita á Ströndum, en eflaust hefur eitthvað af lausum munum og þakplötum af slappara taginu fokið um svæðið. Í Hrútafirði er búið að kalla út björgunarsveitir, en þar er þak íþróttahússins á Reykjum skemmt og líklega að fjúka af skv. fréttavef Morgunblaðsins.

Veðurhorfur til kl. 18:00 á morgun eru á þann veg að gert er ráð fyrir sunnan og suðvestan 15-28 m/sek og allt að 50 m/sek í hviðum í dag, en vestan 10-15 m/sek með éljum í kvöld. Á morgun hefur áttin snúist alveg við, en þá verður samkvæmt spá Veðurstofunnar 3-8 m/sek að austan og él. Hiti verður á bilinu 1-5 stig og frystir í nótt.