26/04/2024

Mijo Biscan og Svavar Knútur með tónleika

Svavar Knútur trúbador og góðkunningi Strandamanna heimsækir Hólmavík á
sunnudaginn og heldur tónleika á Galdra-Loftinu ásamt vini sínum Mijo Biscan frá
Melbourne í Ástralíu. Hefjast tónleikarnir kl. 17 og að venju er ókeypis fyrir börn. Svavar Knútur hefur fyrir venju að kynna erlenda
vini sína og gesti fyrir töfrum Vestfjarða og Strandanna sérstaklega og er Mijo
þar engin undantekning. Mijo hefur áður heimsótt Ísland og kemur hingað í þeim
tilgangi að njóta friðar í íslenskri náttúru og semja tónlist.


Mijo hefur nýverið ákveðið að flytja til
Evrópu og búa í Berlín eftir að hafa orðið ástfanginn af "gamla heiminum". Mijo
er sjálfur af króatísku bergi brotinn, en foreldrar hans flúðu Júgóslavíu Títós
til Ástralíu á 8. áratugnum. Mijo veitir hljómsveitinni Lamplight forystu, en
sú sveit hefur gert það mjög gott bæði í Ástralíu og í Evrópu.

Svavar Knútur
hefur verið afar virkur í því undanfarin ár að koma óþekktum erlendum
listamönnum í tengsl við íslenskt samfélag og kynna þá fyrir náttúru og menningu
landsins.