19/04/2024

Merki fyrir Strandabyggð

Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum á þriðjudag nýtt merki fyrir sveitarfélagið Strandabyggð, en fyrr í haust var haldin samkeppni um val á slíku merki. Þrjár tillögur bárust í samkeppnina, en sú tillaga sem varð fyrir valinu reyndist vera eftir Ástu Þórisdóttur myndlistarmann og kennara við Grunnskólann á Hólmavík. Í merkinu er rúnastafurinn S sem rís eins og klettur upp úr hafinu. Umsögn höfundar um merkið fylgir hér að neðan.

Í umsögn höfundar um merkið segir:

"Við hönnun á þessu merki var leitast við að ná fram eftirfarandi atriðum. Að merkið væri einfalt og stílhreint.  Að það minnti á ströndina og hafið og að það hefði tenginu við sagnaarf Stranda. Hugmyndin að baki þessu merki er að nota bókstafinn "S" úr Fúþark rúnaletrinu. S-ið er upphafsstafur sveitarfélagsins og myndar beina tengingu við nafnið. Rúnir og galdrastafir eru hluti af sagnaarfi Strandamanna og er í takt við menningu svæðisins fyrr og nú. Í dag er uppbygging ferðaþjónustu á svæðinu með áherslu á menningartengda ferðaþjónustu þess valdandi að margir tengja rúnir og galdrastafi beint við svæðið.  Þannig tel ég það að rúna-S styrki og undirstriki þessa tengingu.

Rúnastafurinn "S" er útskýrður sem sól í gömlu rúnakvæði frá víkingaöld: S = Sól er skýja skjöldur og skínandi röðull og ísa aldurtregi. Þessar línur mætti nota sem einkunnarorð sveitarfélagsins og leyfi ég mér að senda aukablað með þeirri tillögu, þó ekki væri nema til gamans. 

Í merkinu má sjá stafinn standa eins og klett í hafinu sem ekki verður hnikað,  þó á honum brjóti brim. Klettar og brim eru stór hluti af ímynd Stranda og tenging við atvinnusöguna sem er að miklu leiti strandmenning með sínum sjávarnyjum.  Einnig má sjá stafinn í hafinu fyrir sér sem stafn á skipi, sem gæti verið myndgerfing fyrir sveitarfélaga sem siglir í gegnum ólgusjó, traust og fullt fyrirheita."