29/05/2024

Brúin yfir Mjóafjörð tengd saman

MjóafjarðarbrúÍ gær var merkisdagur í vestfirskri vegagerð þegar brúin yfir Mjóafjörð í Djúpi, austan við Hrútey, var tengd og brúargólfið soðið saman. Nýi vegurinn um vestanverðan Ísafjörð, úr Reykjanesi og yfir Reykjarfjörð, um Vatnsfjarðarháls og yfir Mjóafjörð mun svo í haust leysa veginn um Eyrarfjall (Hestakleif) innarlega í Ísafirði og út með vestanverðum Mjóafirði af hólmi sem aðalvegurinn milli Hólmavíkur og Súðavíkur. Þá verður bundið slitlag á milli staðanna, auk þess sem 6 einbreiðar brýr færast út af aðalveginum. Nýja leiðin er nokkrum kílómetrum lengri en vegurinn um Eyrarfjall sem þó hefur oft lokast á vetrum, þannig að menn hafa þurft að aka krók um allan Ísafjörð, Reykjarfjörð, Vatnsfjörð og Mjóafjörð. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is var í Mjóafirði í gær og myndaði brúna.

Í frétt um málið á vestfirska fréttavefnum www.bb.is segir:

„„Brúin náði saman í gær, það er sem sagt búið að tengja saman í land og eyju. Menn hoppuðu af gleði þegar þeim áfanga var náð en það er mikill munur að vera búnir að tengja brúna saman því þá er sú hætta liðin hjá að smíðin hrynji í sjóinn. Nú getum við verið rólegir þótt það komi smá vindur“, segir Sævar Óli Hjörvarsson, hjá KNH sem ásamt Vestfirskum verktökum sér um framkvæmdina. Að sögn Sævars verður næst farið í að steypa brúardekk og setja niður handrið og annað slíkt. Áætlað er að ný brú yfir Mjóafjörð verði opnuð í október. „Þetta hefur gengið mjög vel og við vonumst til að verða búnir í haust, en það fer allt eftir því hvort við fáum gott veður,“ segir Sævar.

Um er að ræða um 130 langa stálbrú en einnig er verið að vinna að vegagerð og smíði tveggja annarra brúa í Djúpinu; 60 metra brú í Reykjarfirði og 10 m brú við Vatnsfjarðarós. Þegar framkvæmdum lýkur verður Djúpvegur lagður bundnu slitlagi allt milli Hólmavíkur og Bolungarvíkur. Leiðin er álíka löng og núverandi leið yfir Eyrarfjall. Sú leið hefur oft verið lokuð um fjóra mánuði á ári vegna snjóþyngsla og þungatakmarkana. Þá hafa vegfarendur þurft að taka á sig 35 km krók út fyrir Vatnsfjarðarnes eftir mjóum og seinförnum vegi. Reykjanesleiðin liggur hins vegar meira og minna með ströndum fram og er því snjóléttari."

Mjóafjarðarbrú

vegamal/580-mjoafjardarbru2.jpg

vegamal/580-mjoafjardarbru4.jpg

Brúin yfir Mjóafjörð – ljósm. Jón Jónsson