26/04/2024

Lög um greiðsluaðlögun samþykkt á Alþingi

Í dag voru samþykkt á alþingi lög um greiðslujöfnun á lán einstaklinga hjá fjármálastofnunum. Í þeim felst að greiðslujöfnun verður beitt á öll verðtryggð lán
sem eru með fasteignaveði, nema skuldari óski þess sérstaklega eftir því við lánveitandann að vera undanþeginn þessari breytingu. Afborgun af slíkum lánum ættu því að lækka um 17%, en í staðinn lengist lánið um allt að þrjú ár því að munurinn á afborgun og greiðslubyrðinni safnast upp. Ef eitthvað stendur eftir að þeim þremur árum lýkur verður það fellt niður. Varðandi gengistryggð lán (myntkörfulán) þarf hins vegar að óska sérstaklega eftir greiðslujöfnun.

Lánveitendur skulu jafnframt setja sér  reglur um niðurfellingu lána,
þar sem litið er til eignastöðu og greiðslugetu fyrirtækja, og
jafnframt horfa til þessara þátta hjá einstaklingum.

Á vefsíðunni island.is eru eftirfarandi upplýsingar um breytinguna:

Þak á greiðslujöfnun lána – lenging vegna greiðslujöfnunar verður að hámarki 3 ár

Nýmæli lagabreytinganna felst í því að sett er þak á
greiðslujöfnun fasteignaveðlána þannig að lán lengjast að hámarki um
þrjú ár vegna greiðslujöfnunar umfram gildandi lánasamning. Þetta á
jafnt við um verðtryggð fasteignaveðlán og fasteignaveðlán í erlendri
mynt. Ef einhverjar eftirstöðvar eru af láninu að þeim tíma liðnum
falla þær niður.

Sjálfkrafa greiðslujöfnun frá og með gjalddaga í desember næstkomandi

Lagabreytingin felur í sér að öll verðtryggð
fasteignaveðlán sem eru í skilum fara sjálfkrafa í greiðslujöfnun frá
og með gjalddaga í desember nema lántaki sæki sérstaklega um að svo
verði ekki. Tilkynning um það þarf að berast viðkomandi lánveitanda eigi síðar en 20. nóvember.
Bent skal á að þótt lán sé komið í greiðslujöfnun getur lántaki hvenær
sem er sagt sig frá henni með tilkynningu til lánveitanda sem þarf að
berast í síðasta lagi 10 dögum fyrir næsta gjalddaga lánsins.

Áætlað er að með greiðslujöfnun verði greiðslubyrði af láni í desember um 17% lægri en ella. 

Lán í vanskilum

Sjálfvirk greiðslujöfnun nær einungis til verðtryggðra
fasteignaveðlána sem eru í skilum. Ef lán er í vanskilum er því
eindregið beint til lántaka að setja sig í samband við lánveitanda sinn
og leita samninga um leiðir til að koma láninu í skil. Þegar lán er
komið í skil getur viðkomandi fengið greiðslujöfnun á lánið.

Lán í frystingu

Allmargir einstaklingar eru með lán sín í frystingu til
ákveðins tíma. Þessi lán verða sjálfkrafa sett í greiðslujöfnun þegar
frystingin rennur út og þarf ekki að sækja um það sérstaklega.
 

Upplýsingagjöf lánveitenda til viðskiptavina fyrir 15. nóvember

Bankar, sparisjóðir, lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður munu
fyrir 15. nóvember senda bréf til viðskiptavina sinna vegna lána sem
fara sjálfkrafa í greiðslujöfnun með nánari upplýsingum um
greiðslujöfnunina og áhrif hennar á greiðslubyrði lána. Viðskiptavinir
geta einnig á næstu dögum nálgast almennar upplýsingar um
greiðslujöfnun á heimasíðum þessara stofnana og á vefsíðunni Island.is

Að segja sig frá greiðslujöfnun

Þeir sem ekki kjósa greiðslujöfnun þurfa að tilkynna það
lánveitanda sínum fyrir 20. nóvember vegna gjalddaga í desember og er
viðskiptavinum bent á að leita sér upplýsinga um form slikrar
tilkynningar á heimasíðum þeirra og í netbönkum eða hafa beint samband
við viðkomandi lánastofnun.

Þótt lán sé komið í greiðslujöfnun getur lántaki hvenær sem er
sagt sig frá henni með tilkynningu til lánveitanda sem þarf að berast
eigi síðar en 10 dögum fyrir næsta gjalddaga lánsins.

Þeir sem hafa sagt sig frá greiðslujöfnun en sjá síðar að þeir
kunni að hafa hag af henni, t.d. vegna breyttra aðstæðna geta sótt um
að fá greiðslujöfnun.

Greiðslujöfnun fasteignaveðlána í erlendri mynt, bílalána og bílasamninga

Einstaklingar með fasteignaveðlán í erlendri mynt eiga einnig
kost á greiðslujöfnun en um það þarf að sækja sérstaklega.
Greiðslujöfnun þessara lána byggist ekki á lagaákvæðum heldur á
samkomulagi við hlutaðeigandi aðila sem veita slík lán. Sama máli
gegnir um bílalán og bílasamninga. Samkomulag um greiðslujöfnun
fasteignaveðlána í erlendri mynt og samkomulag um greiðslujöfnun
bílalána og bílasamninga verða undirrituð og kynnt á næstu dögum.