15/04/2024

Strandabyggð hafnar tillögum um Menningarráð Vestfjarða

Það er fjör í vestfirsku menningarlífiSveitarstjórn Strandabyggðar tók á síðasta fundi fyrir erindi frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga um stefnumótun í menningarmálum og samstarfssamning sveitarfélaga á Vestfjörðum um menningarmál og stofnun Menningarráðs. Í samningnum er gert ráð fyrir að Vestfjörðum verði skipt í þrjú svæði, Strandasýsla og Austur-Barðastrandasýsla verði eitt svæði, Vestur-Barðastrandasýsla eitt og Ísafjarðarsýslur eitt og tilnefni fyrrnefndu svæðin 2 fulltrúa hvort í Menningarráðið en Ísafjarðarsýslur 4 fulltrúa. Þá muni 1 fulltrúi koma frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða. Þessu hafnaði sveitarstjórn Strandabyggðar og telur eðlilegra að hvert svæði skipi tvo fulltrúa og að Fjórðungssambandið tilnefni 7. fulltrúann en ekki Atvinnuþróunarfélagið.

Tilgangur samstarfssamningsins er að efla menningarstarf á Vestfjörðum og auka áhrif heimamanna á uppbyggingu og forgangsröðun verkefna á sviði menningarmála. Á grundvelli samningsins milli sveitarfélaganna er fyrirhugað að ríkisvaldið geri samning við Fjórðungssambandið um verulega aukin framlög til menningarmála í fjórðungnum úr sérstökum Menningarsjóði, eins og tíðkast hefur í allmörg ár á Austurlandi og frá síðasta ári á Vesturlandi.