24/04/2024

Ályktanir um sauðfjárrækt eftir Búðardalsfundinn

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu stóð nýlega fyrir opnum fundi um málefni sauðfjárræktar í Dalabúð. Fundurinn var mjög fjölsóttur, en þar mættu um 300 sauðfjárbændur og var húsið fullt út úr dyrum. Fundur þessi var boðaður vegna þess að sauðfjárbændur hafa miklar áhyggjur af núverandi stöðu og framtíðarhorfum í atvinnugreininni. Miklar hækkanir hafa orðið á aðföngum til bænda og má þar nefna 80% hækkun á áburði frá síðasta ári og fyrirséða 50% hækkun á næsta ári. Framleiðsluferli dilkakjöts er mjög langt og verðhækkanir afurða eru lengi að skila sér til bænda.

Margir kvöddu sér hljóðs og áhyggjur manna vegna stöðu sauðfjárræktar voru miklar. Í framhaldi af þessum fundi sendir stjórn Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu frá sér eftirfarandi ályktanir en þær fjalla allar um atriði sem komu fram í máli þeirra bænda sem kvöddu sér hljóðs á umræddum fundi.

Skorað á ráðherra að hafna innflutningi á hráu kjöti

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að leggja ekki fram matvælafrumvarp frá síðasta þingi óbreytt. Félagið skorar á ráðherra að hefja viðræður við ESB um að fá undanþágur frá ákveðnum þáttum frumvarpsins. Þar er helst átt við þá þætti er snúa að frjálsum innflutningi á hráu kjöti.

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu skorar einnig á Bændasamtök Íslands og Landsamtök sauðfjárbænda að hafna alfarið óbreyttu matvælafrumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og óska í framhaldinu eftir öllum upplýsingum um samskipti ráðuneytisins við ESB vegna málsins.

Greinargerð:

Heilbrigði og rekjanleiki íslenskra búvara er með því besta sem gerist í heiminum. Mikilvægt er að fórna ekki þessum árangri með því að heimila óheftan innflutning á hrárri kjötvöru. Þetta frumvarp teflir auk þess mörgum störfum er tengjast landbúnaði beint og óbeint í mikla hættu.

Kannað verði hvort hagræðing í sláturiðnaði hafi skilað sér til bænda

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa nefnd sem fer yfir þá hagræðingu sem verða átti vegna fækkunar og stækkunar afurðarstöðva.

Greinargerð:

Fyrir nokkrum árum setti ríkisvaldið fram miklar fjárhæðir til úreldingar á sláturhúsum. Tilgangur þess var að auka hagræðingu í sláturiðnaði og hækka þannig m.a. afurðaverð til bænda. Mikilvægt er að kanna annarsvegar hvort þessi hagræðing hafi skilað sér í auknum tekjum til afurðarstöðva og hinsvegar hvort þessi hagræðing hafi skilað sér í auknum tekjum til sauðfjárbænda.

Kanna hvort viðskiptahættir á smásölumarkaði séu með eðlilegum hætti

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að kanna hvort samkeppni og viðskiptahættir á smásölumarkaði með íslenskar landbúnaðarvörur séu með eðlilegum hætti.

Greinargerð:

Mikil umræða hefur verið um það meðal bænda, afurðarstöðva, kjötvinnslna o.fl. að samkeppni á smásölumarkaði geti ekki verið eðlileg þar sem markaðurinn sé á of fárra höndum. Mikilvægt er að skoða hvort þetta sé raunin og þá hvernig hægt sé að bregðast við.

Möguleiki á hagstæðari fjármögnun afurðarlána

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu vill að kannað verði hvort mögulegt sé að Byggðastofnun láni afurðastöðvum afurðarlán á hagstæðum vöxtum.

Greinargerð:

Vaxtakostnaður afurðarstöðva er mikill og tekjur til sauðfjárbænda ættu að hækka ef hægt væri að ná þessum kostnaði niður með einhverjum hætti.