24/07/2024

Gullbjörgin fékk stórlúðu

Einar skipstjóri og Benni á Gullbjörginni ÍS-666 komu með heljarstóra lúðu grálúsuga að landi á Drangnesi í gær, en þeir lögðu lúðulóð á laugardaginn við Fiskinesboðann eða þar fyrir utan. Þeir drógu í gær og fengu þessa stórlúðu sem vigtaði 128 kíló slægð, en hún var eina lúðan sem kom upp úr sjó í þetta skiptið. Gullbjörgin hefur verið að róa frá Drangsnesi og sent aflann á markað, en nú eru þrír bátar að vestan sem landa á Drangsnesi – Gullbjörgin, Ísbjörgin og Björg Hauks og svo kemur Jón Emil aftur  á næstu dögum en hann bilaði og fór vestur í viðgerð. Hafa allir bátarnir fiskað nokkuð vel af ýsu.

Einar skipstjóri með vindilinn, Benni, stórlúðan og Gullbjörgin – ljósm. Árni Þór Baldursson