22/12/2024

Fyrirtæki vöruð við erlendri svikamyllu

Viðskiptaráð hefur sent frá sér viðvörun til aðildarfélaga sinna og annarra íslenskra fyrirtækja vegna erlendrar svikamyllu sem gengur undir nafninu EuroBusinessGuide. Viðskiptahættir þessara aðila eru afskaplega vafasamir og ganga þannig fyrir sig að fyrirtækjum er sendur tölvupóstur þar sem þau eru hvött til að skrá sig á fyrirtækjalista á vefnum, en einnig hefur komið fyrir að fyrirtæki fái slík erindi í pósti og eigi að fylla út eyðublað og skila. Undir tölvupóstinn skrifar einhver aðili og fyrir neðan nafn hans stendur eitthvað á þá leið að uppfærsla í skránna sé ókeypis og er það merkt með upphrópunarmerki og stórum feitletruðum stöfum.

Það gefur viðkomandi fyrirtæki til kynna að það sé nú þegar skráð á þennan lista og þurfi einungis að fylla eyðublaðið út til að vera áfram skráð, endurgjaldslaust. Í smáa letri eyðublaðsins kemur hins vegar fram að viðkomandi fyrirtæki sé að skrá sig til þriggja ára og fyrir það þurfi að borga 990 evrur árlega. Veittur er sjö daga frestur til að hætta við, en reikningurinn kemur mun síðar og þegar viðkomandi áttar sig á svikunum er fresturinn runninn út.

Þessir aðilar eru fagmenn að því leyti til að þeir standa við allar skuldbindingar sínar samkvæmt eyðublaðinu, þ.e. senda viðkomandi fyrirtæki geisladisk og skrá það í fyrrgreinda fyrirtækjaskrá. Hingað til hafa aðilar í slíkri starfsemi einungis farið fram á greiðslur, en með því að standa við skuldbindingar eru þeir að viðhalda samningssambandi við þessi fyrirtæki. Vegna þessa er óvíst hvort þeir brjóti gegn innlendri löggjöf á sviði fjársvika þó ljóst sé að viðskiptahættir sem þessir eru afar vafasamir og standast eflaust ekki ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum.

Viðskiptaráð hefur haft samband við ríkislögreglustjóra sem hvetur öll fyrirtæki til að hundsa greiðsluseðla frá þessum aðilum sem og allar hótanir um lögfræðiinnheimtu. Viðskiptaráð vill jafnframt hvetja aðildarfélög sín til að endursenda öll gögn sem þau fá send frá þessum aðilum. Að auki eru félögin hvött til að senda með þessum gögnum bréf þar sem allri greiðsluskyldu er hafnað á grundvelli sviksamlegra viðskiptahátta. Ef fyrirtæki fá tölvupósta þar sem farið er fram á greiðslu er lagt til að svarað verði með samskonar bréfi. Mikilvægt er að fyrirtækin hafi um þetta samráð við sitt starfsfólk sem hefur með fjármál fyrirtækjanna að gera svo að greiðsluseðlar frá þessum aðilum verði ekki greiddir fyrir misgáning.