01/05/2024

Sauðfjársetrið á Eyrarrósarlistanum 2016

645-svidav6

Sauðfjársetur á Ströndum er í hópi þeirra tíu framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunnar sem eru tilnefnd til Eyrarrósarinnar á þessu ári. Að verðlaununum standa Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík. Verkefnin eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg og koma alls staðar að af landinu. Þann 2. febrúar verður tilkynnt hvaða þrjú verkefni hljóta verðlaun og um miðjan febrúar hvert þeirra stendur uppi með Eyrarrósina sjálfa. Á Eyrarrósarlistanum 2016 eru Act Alone einleikjahátíðin á Suðureyri, Að – sjónvarpsþáttaröð N4, Barokksmiðja Hólastiftis, Eldheimar í Vestmannaeyjum, Ferskir vindar – listahátíð í Garði, Northern Wave stuttmyndahátíðin í Grundarfirði, Reitir – listasmiðja á Siglufirði, Rúllandi snjóbolti – alþjóðleg samtímalistasýning á Djúpavogi og Verksmiðjan á Hjalteyri – listamiðstöð, sýningarsalir og gestavinnustofur í gömlu síldarverksmiðjunni.

Að venju mun Dorrit Moussaieff forsetafrú, verndari Eyrarrósarinnar, afhenda verðlaunin. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem verðlaunin tengjast Ströndum, Strandagaldur fékk Eyrarrósina árið 2007 fyrir starfsemi Galdrasýningar á Ströndum.

Sauðfjársetur á Ströndum hefur verið starfandi frá árinu 2002 í félagsheimilinu Sævangi við Steingrímsfjörð á Ströndum. Sauðfjársetrið er safn sem tekur á móti fjölda ferðamanna á ári hverju, auk þess sem íbúar á Ströndum koma margir margsinnis í heimsókn á hverju ári á viðburði eða í veislur. Sauðfjársetrið vinnur auk þess að margvíslegum menningarverkefnum.

Jafnan eru uppi 4 sögu- eða listsýningar á Sauðfjársetrinu í einu. Fastasýning safnsins heitir Sauðfé í sögu þjóðar og er verið að endurnýja hana frá grunni. Síðan eru hverju sinni uppi þrjár tímabundnar sérsýningar sem standa yfirleitt í 1-2 ár. Í Sævangi er einnig starfrækt kaffistofan Kaffi Kind og handverks- og minjagripabúð.

Þær sérsýningar sem eru eða voru uppi á árinu 2015 eru Álagablettir (list- og sögusýning tengdum stöðum á Ströndum sem bannhelgi hvílir á), Manstu? (greiningarsýning á ljósmyndum Tryggva Samúelssonar frá árabilinu 1945-1969 í samvinnu við Ljósmyndasafn Íslands á Þjóðminjasafninu), Allt á kafi – snjóaveturinn mikli 1995 (ljósmynda- og textasýning) og Brynjólfur Sæmundsson og starf ráðunauta (sögusýning þar sem ævi og störf Brynjólf eru í forgrunni, en hann var héraðsráðunautur á Ströndum í nærri 40 ár).

Sauðfjársetrið stendur fyrir fjölda viðburða á ári hverju, þar sem markhópurinn er bæði heimamenn og ferðafólk. Þessi dagskrá hefur þróast mjög og orðið þéttari á síðustu árum.

Á árinu 2015 voru stærstu viðburðirnir Furðuleikar á Ströndum sem jafnan eru haldnir í tengslum við bæjarhátíðina Hamingjudaga á Hólmavík. Þar fer fjölskyldan öll saman í skemmtilega leiki. Þetta árið mætti tökulið frá BBC til að taka upp skemmtiþátt um Furðuleikana í þáttaröðinni All Over the Place.

Annar stór viðburður er Íslandsmótið í hrútadómum sem haldið er í ágúst ár hvert. Þar mættu um 600 manns þetta árið, alls staðar af landinu, til að keppa í hrútaþukli eða fylgjast með þeirri sérstæðu skemmtun. Meðal gesta nú voru aðalleikarar myndarinnar Hrútar, Theódór Júlíusson og Sigurður Sigurjónsson, sem háðu hrútaþuklseinvígi, gestum Sauðfjársetursins til óblandinnar gleði. Sviðaveisla var haldin í október og þjóðtrúarmálþing og kvöldvaka með yfirskriftina Mannát, dauði og djöfull í september.

Sauðfjársetrið setti einnig upp leikrit í samvinnu við Leikfélag Hólmavíkur á árinu 2015 annað árið í röð. Þetta er nýr íslenskur einleikur sem heitir Draugasaga og er eilítið óhugnanlegur – þar er heilsað upp á húsdrauginn í Sævangi sem reynist hreint ekki eins skemmtilegur og gestum virðist í fyrstu.

Fjöldinn allur af smærri viðburðum, fyrst og fremst fyrir heimamenn, eru jafnan á dagskránni: Sögustundir, útivist og gönguferðir, spilavist, spurningakeppnir, kaffihlaðborð, dráttarvéladagur og ýmislegt fleira. Námskeiðahald er líka af og til í Sævangi, nefna má námskeið í þæfingu og þjóðbúningasaumi, og þar er kjörin aðstaða fyrir fundi.

Stærsta framtak Sauðfjársetursins á árinu 2015 var nýtt verkefni – Náttúrubarnaskólinn. Ætlunin er að í framtíðinni verði hann mikilvægur þáttur bæði í starfsemi Sauðfjársetursins og mannlífi og ferðaþjónustu á Ströndum. Byggt er á hugmyndafræði um náttúrutúlkun og menntatengda ferðaþjónustu. Sérstakur verkefnisstjóri var ráðinn, svokallað yfirnáttúrubarn, sem mótaði verkefnið og hélt margvísleg námskeið og stóð fyrir tilraunum sem tengjast náttúruskoðun og upplifun. Alls mættu 200 þátttakendur á námskeiðin á þessu fyrsta starfsári og ljóst að Náttúrubarnaskólinn er kominn til að vera. Hann mun í framtíðinni bjóða upp á allskonar námskeið og viðburði fyrir börn og fjölskyldufólk, heimamenn og ferðafólk, innlenda gesti og erlenda.

Það er sannfæring aðstandenda Sauðfjárseturs á Ströndum að söfn og menningarstofnanir eigi að vera virkir þátttakendur í því samfélagi sem þær eru hluti af. Á þeim grunni byggist starfsemin. Á árinu 2016 er ætlunin að halda áfram á sömu braut og leggja sérstaka áherslu á markaðssetningu Sauðfjársetursins og Náttúrubarnaskólans.

Meðfylgjandi ljósmynd er frá starfi Náttúrubarnaskólans sumarið 2015 og eru myndirnar teknar af Dagrúnu Ósk Jónsdóttir.