28/04/2024

„Kostar ekki nema neitt“ – Jú mig!

Grein eftir Telmu Magnúsdóttir
Ég er ung sveitastúlka, uppalin á landsbyggðinni, fyrrverandi og verðandi námsmaður sem notar strætó til að komast milli staða í borginni. Mér stóð ekki til boða nám á framhalds- eða háskólastigi í minni heimabyggð, ég leigi íbúð í höfuðborg Íslands, borga fyrir hita og rafmagn hjá Orkuveitunni, kaupi mér kort í Sundlaugar Reykjavíkur og hef borgað í fjögur ár „skólagjöld“ til Háskóla Íslands. Ég vil fá frítt í strætó fyrir alla námsmenn í Reykjavík!

Frítt fyrir námsmenn í Strætó – nema okkur?

Það er áhugavert að lesa á síðu Reykjavíkurborgar yfirlýsingar meirihluta borgarstjórnar frá fundi borgarráðs í byrjun júlí þar sem glaðst er yfir áframhaldandi verkefni um ,,frítt fyrir námsmenn í strætó. Ég gleðst einnig yfir því að loks hafi verið teknar upp gjaldfrjálsar strætóferðir fyrir námsmenn haustið 2007 og nú skuli því haldið áfram. Á hinn bóginn á ég erfitt með að hoppa hæð mína og  stíga gleðidans þegar eins miklu ójafnræði er beitt eins og raun ber vitni. „Þessar gleðifréttir“ eru nefnilega ekki eins gleðilegar og þær voru fyrir ári. Nú standa sex sveitarfélög í samstarfi við Strætó bs að verkefninu. Þau sveitarfélög eru, auk Reykjavíkur; Hafnafjörður, Kópavogur, Seltjarnarnes, Mosfellsbær og Álftanes. Þau hafa í samstarfi við Strætó bs tekið þá ákvörðun að aðeins þeir námsmenn sem eiga lögheimili í ofantöldum sveitarfélögum geti fengið frítt í almenningsvagna Strætó bs skólaárið 2008-2009.

Vinstri Græn krefjast jafnræðis óháð búsetu

Á flokksráðsfundi Vinstri-Grænna  þann 30. ágúst síðastliðinn var því beint til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að gæta jafnræðis og veita öllum námsmönnum frítt í Strætó óháð lögheimili. Ályktun þessa get ég ekki annað en stutt heils hugar.

Á Íslandi eru í boði margir skólar til framhaldsnáms. Einnig höfum við háskóla með beinum skólagjöldum eða innritunargjöldum. Útgjöld námsmanna eru því töluverð og hef ég áhyggjur af því að hækkandi gjöld geti staðið í vegi fyrir frekari menntun þeirra. Við þurfum að tryggja námsmönnum jafnan rétt óháð því hvaða nám þeir stunda eða hvaðan þeir koma af landinu. Nýjar reglur um Nemakortin hjá Strætó bs ná ekki til okkar  sem komum utan af landi og skilaboðin eru skýr. Námsmönnum utan af landi er greinilega ekki fagnað á höfuðborgarsvæðinu.

Neydd til náms og útgjalda í Reykjavík

Flest ungt fólki á landsbyggðinni gengur ekki að framhaldsnámi gefnu í sinni heimabyggð. Í Reykjavík er námsframboð hins vegar mikið og fjölbreytt og því eðlilegt að þeir sem vilja öðlast góða menntun flytji til Reykjavíkur enda hafa stjórnvöld stefnt ungu fólki þangað til mennta. Þetta unga landsbyggðafólk þarf í mörgum tilfellum að flytja að heiman aðeins 16 ára og hefur þurft að borgað leigu á húsnæði og framfleyta sér sjálft að miklu leyti allt frá þeim aldri. Námsmenn með lögheimili Í Reykjavík eiga hins vegar flestir möguleika á hagstæðari framfærslu. Þeir búa oftast frítt í foreldrahúsum þar sem þeir geta gengið í ísskápinn og sest að matarborði með fjölskyldunni, jafnvel fengið lánaðan fjölskyldubílinn til að skutlast milli hverfa. „Kostar ekki nema neitt“ býður því upp á hrópandi mismunun. Það styður síst við þá nemendur sem þurfa að framfleyta sér sjálfir og eru einir á báti í stórborginni en greiðir götu hinna sem lifa í nálægð við fjölskyldu sína.

Nemar af landsbyggðinni borga allt sitt til Reykjavíkur

Framhaldsskólar og háskólar í borginni eru að miklu leyti reknir af opinberum fjármunum,og staðsetning þeirra ákveðin af stjórnvöldum allra landsmanna. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu njóta góðs af staðsetningu skólanna og hafa drjúgar tekjur af þeim sem og námsönnunum. Það er með ólíkindum að þessi ágætu sveitarfélög skuli ekki gera sér grein fyrir hvað námsmenn skapa þeim og samfélaginu miklar tekjur t.a.m í formi húsaleigutekna, matarinnkaupa og neyslu. Að ekki sé nú talað um hvað ungir námsmenn auðga mannlífið því líflegt menntasamfélagið skapar fjölskrúðugt mannnlíf og setur mark sitt á borgarmenninguna. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ættu því að vera þakklát fyrir að fá að hýsa helstu menntastofnanir landsins og bjóða unga fólkið af landsbyggðinni sem stundar þar nám velkomið til sín með því að bjóða þeim frítt í Strætó eins og öðrum.

Telma Magnúsdóttir, Steinnesi, A-Hún.