19/04/2024

Úreltur samgönguráðherra

Aðsend grein: Anna Kristín Gunnarsdóttir
Ég gladdist þegar ég heyrði ályktun Samtaka verslunar og þjónustu um samgöngumál.  Bent er á sömu atriði og ég hef verið að fjalla um í mæltu máli og rituðu, allt frá því ég tók sæti á Alþingi, að vegakerfi landsins er allsendis ófullnægjandi, í einu orði sagt stórhættulegt.  Umferðarspá fyrir Vesturland, sem gilda áttu til 2012, fór framúr um 1000 bíla í fyrra.  Þungi flutningabíla hefur molað undirstöður og valdið missigi.  Nú er unnið að síðari hluta vegar yfir Þverárfjall og hann hafður metra breiðari en fyrri hlutinn sem lokið var við fyrir 2 árum.  Ástæðan:  miklu meiri umferð en reiknað var með.  Allt vísar í sömu átt nema eitt.  Viðbrögð ríkisstjórnarinnar.

Fjárframlög til vegamála þurfa að sjálfsögðu að stóraukast.  Það er smánarlegt að á sama tíma og hagsmunasamtök í landinu vara við úr sér gengnum vegum vegna aukinnar umferðar er mörg þúsundum íbúa landsins boðið uppá að aka eftir holóttum malarvegum á þjóðvegum, þeim einu leiðum sem liggja milli þeirra og höfuðborgar landsins.  Að ég tali ekki um alla vegakaflana þar sem búast má við grjóthruni, snjóflóðum eða aurflóðum.  Og allir fjallvegirnir og hálsarnir sem enn eru einu samgönguleiðir milli byggða.

Landsmenn, bæði íbúar höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðar, verða að horfast í augu við að samgöngukerfið íslenska hefur verið svelt í tíð þessarar ríkisstjórnar.  Þeir sem hafa haldið um taumana undanfarin kjörtímabil lifa ekki í nútímanum og þeim verður að koma frá.  Þeir hafa leikið ljótan skollaleik þar sem þeir hafa stært sig af  framlögum til vegamála fyrir kosningar en tekið til baka jafnharðan að kosningum loknum.  Og að bera saman framlög til vegaframkvæmda fyrir áratug og nú er besti vitnisburðurinn um að viðkomandi lifir ekki í nútímanum, er úreltur.  Við eigum réttmæta kröfu á að ferðast við þær öruggustu aðstæður sem nútíma tækni býður, á láglendi, breiðum vegnum með bundnu slitlagi.

Samtök verslunar og þjónustu hafa lög að mæla.  Að sjálfsögðu þarf að stórauka fjármagn, setja sérháleitari og nútímalegri markmið varðandi vegaframkvæmdir og tímasetja þau.  Eins og ég benti nýlega á í grein á heimasíðu minni www.althingi.is/akg.

Ég fagna liðsinni Samtaka verslunar og þjónustu í baráttunni fyrir nútíma samgöngum og gegn úreltum hugsunarhætti.

Anna Kristín Gunnarsdóttir
alþingismaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi