19/04/2024

Tekjuskattur og hámarksútsvar hækka frá áramótum

Samkvæmt frumvarpi sem forsætisráðherra mælir fyrir á Alþingi í dag hækkar tekjuskattsprósentan um 1,25 prósentustig. Hluti af þessari hækkun rennur til sveitarfélaganna í gegnum Jöfnunarsjóð og er ætlað að koma til móts við niðurfellingu viðbótarframlags til sjóðsins og þaðan til sveitarfélaganna. Jafnframt verður heimilað að hækka hámarks útsvar sem er tekjustofn sveitarfélaganna úr 13,03% í 13,28% eða um 0,25 prósentustig. Þannig er ljóst að útlitið með fjárhagsstöðu og tekjur sveitarfélaganna er töluvert betri í dag en í gær.

Í frétt á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að þótt frumvarpið sé ekki orðið að lögum sé eðlilegt að sveitarstjórnir taki afstöðu til þess í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár hvort heimild til hækkunar útsvars verði nýtt. Ákvörðun sveitarstjórnar um útsvarshlutfall skal liggja fyrir eigi síðar en 30. desember og skal tilkynna þá ákvörðun til fjármálaráðuneytisins fyrir sama tíma.

Meðal þess sem sveitarstjórnir þurfa að hafa í huga er að í gildandi reglur um útreikning á tekjujöfnunarframlagi og útgjaldajöfnunarframlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga miðast við að sveitarfélag fullnýti tekjustofna sína. Einnig skal minnt á að í reglum Jöfnunarsjóðs um úthlutun aukaframlags til sveitarfélaga til að jafna aðstöðumun vegna þróunar í rekstrarumhverfi og erfiðra ytri aðstæðna, er tekið fram að einungis þau sveitarfélög sem fullnýta útsvarsheimild fái framlag.