14/12/2024

Fullt að gerast á Hamingjudögum

Hamingjudagar eru að komast á skrið og fjöldi íbúa Hólmavíkur hamast við að skreyta hús sín í ágætu veðri, en margir hinkruðu með það í roki og rigningu í gær. Í dag eru æfingar hjá Heiðu Ólafs fyrir söngkeppni barna milli 15-18 í skólanum, einnig er kassabílasmiðja í fullum gangi fyrir keppnina á morgun. Fiskihlaðborð er á Café Riis 18-21, Stefnumót á Ströndum verður opnað formlega í íþróttamiðstöðinni 19:30 og furðufataball er í Félagsheimilinu kl. 20-21:30. Kl. 20 hefjast einnig tónleikar Svavar Knúts og Raddbandafélags Reykjavíkur í Bragganum 🙂

Að loknum tónleikum og furðufataballi fer setningarathöfn Hamingjudaga fram í fjörunni við Kópnes. Þar troða m.a. upp Gísli Einarsson og Rögnvaldur gáfaði með gamanmál og laglausi kórinn verður formlega stofnaður með tilheyrandi hamingjutónum og inntökupróf framkvæmd. Fjöldasöngur við hamingjueldinn.

Í kvöld munu svo Bjarni Ómar og Stebbi leika fyrir dansi á Café Riis.