22/12/2024

Brúargerð við Selá

Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar á Hvammstanga er nú við störf við að breikka brúna yfir Selá sunnan við Fögrubrekku í Hrútafirði. Voru vegagerðarmenn að vinna við steypta stólpa í undirstöðum brúarinnar þegar fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is smellti af þeim myndum. Tengist þessi breikkun á brúnni fyrirhugaðri vegagerð í Hrútafirði og færslu hringvegarins um fjarðarbotninn. Er brúargerðin mikið fagnaðarefni, enda er alltaf nokkur slysahætta við einbreiðar brýr.

Við þessar framkvæmdir fækkar einbreiðum brúm á leiðinni frá Brú í Hrútafirði til Hólmavíkur úr fjórtán í þrettán. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hvetur menn til að aka varlega í grennd við framkvæmdir í Hrútafirði, bæði vegaframkvæmdir og brúargerðina.

Ljósm. Jón Jónsson