12/11/2024

Síldarævintýrið: Stóriðja á Ströndum

Af djupavik.isÁ fimmtudaginn verður haldinn fyrirlestur á vegum Félags íslenskra fornleifafræðinga og Fornleifafræðingafélags Íslands, 10 mars 2011 kl. 20:00. Að þessu sinni mun Þóra Pétursdóttir, doktorsnemandi í fornleifafræði við Háskólann í Tromsø, flytja fyrirlesturinn Stóriðja á Ströndum. Í erindinu verður sagt frá yfirstandandi doktorsrannsókn á verksmiðjuminjum í Ingólfsfirði og Djúpavík í Árneshreppi á Ströndum.

Á 4. og 5. áratug síðustu aldar risu þar síldarbræðslur, stóriðjur þess tíma, sem möluðu eigendum sínum gull um skamman tíma. Við verksmiðjurnar byggðust upp lítil samfélög, sem þöndust út og drógust saman með dyntum síldarinnar og hurfu loks alveg með hvarfi hennar á 6. og 7 áratugnum. Minjar þessara stóriðjutíma standa þó enn og stinga nokkuð í stúf við umhverfi sitt og almennt yfirbragð þessa afskekkta byggðarlags.

Rannsóknin er hluti stærra verkefnis sem hefur að markmiði að skoða nútímaminjar í víðum skilningi, upplýsinga- og menningarlegt gildi þeirra, og afdrif í fræðilegri sem og almennri orðræðu. Ásamt því auka við minningu síldarævintýrisins, og þess óyrta í þeirri sögu, munu verksmiðjuminjarnar því einnig kynda undir kennilegar vangaveltur um nývæðingu, niðurrif, efnismenningu og gildi hennar. Verkefnið er skammt á veg komið og mun erindið aðallega snúa að þeim hugmyndum sem fyrir liggja og kynningu á stöðunum tveimur sem rannsóknin beinist að.
 
Eftir fyrirlesturinn verður opið fyrir spurningar og frekari umræðu um þetta efni. Fyrirlesturinn verður í kjallara húsnæðis Fornleifaverndar ríkisins, Suðurgötu 39, 101 Reykjavík.