26/04/2024

Bílvelta á Borgahálsi

Laust eftir miðnætti í gærkvöldi varð bílvelta á Borgahálsi í Bæjarhreppi. Óhappið varð með þeim hætti að þegar ökumaðurinn, sem var einn í bílnum, kom að syðri tvískiptu hæðinni á hálsinum, þá var búið að keyra á merkið sem skiptir leiðunum. Merkið lá flatt, en samt svolítið á lofti. Við þetta brá ökumanni svo að hann missti stjórn á bílnum sem hafnaði á hvolfi utan vegar og er ónýtur eftir. Ökumaðurinn skarst á höfði en slapp að öðru leyti ótrúlega vel frá þessu. Sjúkrabíll kom frá Hvammstanga ásamt lækni sem  gerði að sárum ökumanns.

Eins og áður sagði þá var búið að keyra niður merkið áður en óhappið varð, án þess að fjarlægja það af veginum og tilkynna það óhapp til hlutaðeigandi aðila. Þetta getur verið mjög alvarlegt og eru menn hvattir til að tilkynna svona þegar í stað.

Eins og sjá má er bíllinn ónýtur – ljósm. Sveinn Karlsson