20/04/2024

Heiða á Hamingjudögum

Hólmvíska Idolstjarnan Heiða Ólafs mun heiðra Strandamenn og gesti þeirra með nærveru sinni á Hamingjudögum á Hólmavík í sumar. Heiða mun spila á tónleikum í Félagsheimilinu og dansleik í Bragganum á föstudeginum en á laugardeginum verður hún á færeyskum dögum í Ólafsvík. Tónleikar með Heiðu voru eitt af því fyrsta sem gengið var frá varðandi skemmtikrafta á áðurnefnda Hamingjudaga. Því er við að bæta að til greina kemur að Heiða syngi vinningslagið í lagasamkeppni í tengslum við hátíðina. Flutningur hennar er þó háður samþykki Skífunnar, þar sem Heiða er samningsbundin.


Einnig kemur höfundar sigurlagsins til með að geta valið annan flytjanda fyrir sitt lag. Lagasamkeppnin stendur til 25. maí og eftir það hefur dómnefnd frest til 28. maí til að velja sigurlagið. Síðast þegar fréttist úr herbúðum Menningarmálanefndar Hólmavíkurhrepps, sem er að skipuleggja hátíðina ásamt Bjarna Ómari Haraldssyni framkvæmdastjóra hennar, hafði einu lagi verið skilað í keppnina. Ríkir mikil spenna í herbúðum dómnefndar. Vænta má að sigurlagið verði flutt við setningu hátíðarinnar á föstudeginum, öðru hvoru megin við tónleika Heiðu.