29/05/2024

Café Riis opnar 2. júní

Café Riis opnar sumaropnun fimmtudaginn 2. júní næstkomandi, en þessa dagana eru nýjir eigendur að gera allt klárt fyrir opnunina. Að sögn Sigrúnar Maríu Kolbeinsdóttur og Guðrúnar Eggertsdóttur verða ekki um neinar róttækar breytingar að ræða á rekstrinum frá því sem áður var en einhverjar nýjungar muni þó líta dagsins ljós, meðal annars sérstakir fjölskyldudagar þar sem fjölskyldan getur farið út að borða án þess að þurfa að horfa of mikið í kostnaðinn. Þær munu vinna á Café Riis og vera Báru Karlsdóttur til aðstoðar í eldhúsinu sem er einn eigandi staðarins ásamt eiginmönnum þeirra allra. Gengið hefur verið frá ráðningu fólks í sal að langmestu leyti og mikill hugur er í nýjum eigendum veitingastaðarins.


„Síðustu dagar hafa verið mjög ánægjulegir", segja þær Sigrún og Guðrún og þær segja að bæjarbúar hafa almennt verið sérstaklega elskulegir og að þær finni fyrir mikill jákvæðni fyrir framtakið og ótrúlega margt fólk hafi boðist til að rétta þeima hjálparhönd við eitt og annað. „Maddi og Bobba (fyrri eigendur Café Riis) hafa reynst okkur svakalega vel og okkur langar að koma á framfæri sérstökum þökkum til þeirra. Það er ómetanlegt að þau skuli miðla til okkar af reynslu sinni og hvetja okkur þannig áfram".

Verið að leita að kokki þessa dagana til að taka þátt í eldamennskunni yfir háannatímann en stefnt er að því að staðurinn verði opinn daglega eitthvað fram eftir hausti. „Auðvitað veltur það á aðsókn, en það er til lítils að hafa endalaust opið ef enginn lætur sjá sig", segja þær stöllur en stefnan er að hafa opið eins mikið og mögulegt er yfir vetratímann, vonandi aðra hvora helgi.

Ásamt því að ákveða matseðil, versla inn og gera allt klárt fyrir sumarvertíðina þá hefur mikil hugmyndavinna átt sér stað með atburði og uppákomur í sumar og næsta vetur en sitthvað verður á seyði á Café Riis hér eftir sem hingað til.