19/04/2024

Bætt við gistirými

Í vetur hafa staðið yfir töluverðar framkvæmdir hjá Ferðaþjónustunni Kirkjuból við Steingrímsfjörð. Ætlunin er að bæta þar við 8 gistiherbergjum fyrir komandi sumar þannig að samtals verða þá 13 herbergi í boði á Kirkjubóli. Ester Sigfúsdóttir gistihússtjóri segist bjartsýn á sumarið: „Ferðaþjónustan hér á Ströndum hefur verið í uppsveiflu og vonandi heldur hún áfram. Bókanir fyrir sumarið eru orðnar töluverðar og mun meiri en á sama tíma á síðasta ári."

Ester segir að yfir háannatímann síðustu tvö ár hafi verið mjög mikið um frávísanir og oft hafi ekkert gistirými verið laust heldur í næsta nágrenni. Stundum hafi fólk sem hafði ekki pantað fyrirfram orðið að leita út fyrir svæðið eftir gistingu. Hún segir einnig verulegan mun á því hvað ferðaþjónustutímabilið virðist hafa lengst í báða enda frá því gistihúsreksturinn á Kirkjubóli hófst fyrir fjórum árum.

„Í júlí í fyrra var nánast vonlaust að banka upp á hérna hjá okkur og spyrja um gistingu næstu nótt. Herbergjanýtingin hjá okkur var 98% í þeim mánuði," segir Ester og bætir við að sumarið í fyrra hafi verið með ólíkindum gott í rekstri ferðaþjónustunnar: „Júní, júlí, ágúst og september 2004 eru fjórir bestu mánuðir í rekstrinum frá því við opnuðum vorið 2001."

Kirkjuból við Steingrímsfjörð – sjá á vefnum www.strandir.saudfjarsetur.is/kirkjubol.