12/09/2024

Átthagafræði á Ströndum styrkt

Fræðslumiðstöð Vestfjarða fékk tvo styrki úr Starfsmenntasjóði á dögunum. Annar var að upphæð 800 þúsund og er til samvinnuverkefnis Fræðslumiðstöðvarinnar, Strandagaldurs, Sögusmiðjunnar á Kirkjubóli og Náttúrustofu Vestfjarða. Snýst verkefnið um kennsluefni og námskeið í átthagafræði í Hólmavíkur-, Kaldrana- og Árneshreppum á Ströndum. Þessi námskeið eru hugsuð þannig að þau séu opin öllum og aðilar tengdir ferðaþjónustu séu sérstaklega hvattir til að mæta og fræðast um sínar heimaslóðir. Þetta verkefni er á byrjunarreit, en byggt verður á margvíslegri verkefnavinnu sem farið hefur fram hjá þessum samstarfsaðilum.

Átthagafræði snýst um rannsóknir á ákveðnum afmörkuðum svæðum og miðlun þeirra. Markmiðið er fyrst og fremst að gefa fólki færi á að vita meira um sínar heimaslóðir, sérstöðu þeirra og einkenni. Þar gæti t.d. verið fjallað um gróður og dýralíf, jarðfræði, sögu, samgöngur að fornu og nýju, mannlíf og menningu, samskipti við fólk utan svæðis, þróun byggðar, fornminjar, atvinnuhætti, þjóðtrú og þjóðsögur, skólamál og ýmsa aðra þætti. Einnig hvernig sagan og sérstaðan er nýtt í samtímanum og hvaða sóknarfæri eru á því sviði.

Hinn styrkurinn sem Fræðslumiðstöð Vestfjarða fékk úr Starfsmenntasjóði var að upphæð 850 þúsund og snýst það verkefni um nýjungar í ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Eru samstarfsaðilar Fræðslumiðstöðvarinnar í því verkefni Náttúrustofa Vestfjarða, Ferðamálasamtök Vestfjarða, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Markaðsstofa Vestfjarða, auk Tourist Board Training (TBT) í Skotlandi.

Í átthagafræði læra menn m.a. að "lesa í landið" – ljósm. Sigurður Atlason