26/04/2024

Sauðfjárbændur kætast

Í liðinni viku hélt Félag Sauðfjárbænda í Strandasýslu árlegan aðalfund. Fundurinn var ágætlega sóttur og meðal tíðinda af fundinum var að Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum hætti formennsku. Félag sauðfjárbænda í Strandasýslu var stofnað 1985 og hann hafði verið í stjórn frá upphafi að starfsárinu 1991 til 1992 undanteknu og formaður síðustu 9 ár. Við formennskunni tók nafni hans og frændi Guðbrandur Björnsson á Smáhömrum. Gestir fundarins voru þau Erna Bjarnadóttir sviðsstjóri félagssviðs Bændasamtaka Íslands og Sigurður Jóhannesson formaður samtaka sláturleyfishafa.

Erna fór meðal annars í erindi sínu yfir stöðu í alþjóðasanmingum um viðskipti með landbúnaðarvörur og hvernig sauðfjárbændur gætu aðlagað sig þeim breytingum sem yrðu og nýtt um leið tækifæri sem þessar breytingar fælu í sér.

Sigurður sagði frá miklum breytingum í eignarhaldi og samstarfi afurðastöðva. Hann ræddi um þróun, stöðu og horfur á kjötmarkaði. Mikil söluaukning hefur orðið á kjöti, ekki síst lambakjöti, síðustu misseri og ef fer sem horfir mun vera hætta á kjötskorti í landinu er líður á sumar. Þetta eru auðvitað gleðitíðindi fyrir sauðfjárbændur þrátt fyrir að afurðaverð sé enn of lágt og í þessari stöðu er sú hætta fyrir hendi að erlendir markaðir sem verulegum fjármunum hefur verið varið til að vinna tapist ef ekki næst að fullnægja eftirspurn.

strandir.saudfjarsetur.is hafa fengið góðfúslegt leyfi Sigurðar til að birta þau gögn sem hann lagði fram á fundinum, enda segja myndir stundum meira en orð.

Mynd sem sýnir þær afurðastöðvar sem nú starfa og tengsl þeirra

Á þessari glæru sést greinilega hvernig framboð á nautakjöti hefur minnkað stórlega á síðustu mánuðum.

Heildarkjötsala og þróun hennar, kjötneysla eykst um um það bil 500 grömm á ári á hvern Íslending – línurit og gögn frá Sigurði Jóhannessyni