09/09/2024

Fuglasögur á Ströndum í sumar

Páll Steingrímsson kvikmyndagerðarmaður hefur undanfarin ár unnið að verkefninu Fjórar fuglasögur ásamt Friðþjófi Helgasyni sem eru fjórar sjálfstæðar myndir um hrafninn, spóann, skarfinn og rjúpuna. Í leit að myndaefni um hrafninn leituðu þeir félagar að sjálfsögðu á Strandir og lágu fyrir krumma við Bassastaði í Steingrímsfirði ásamt því að góð kynni tókust á milli þeirra og hrafnanna sem hafa haldið til við Galdrasafnið á Hólmavík tvö undanfarin sumur. Fjórar fuglasögur verða á dagskrá Sjónvarpsins næsta haust en Páll og Sigurður Atlason hjá Galdrasýningu á Ströndum hafa rætt um að hafa sérstaka forsýningu á myndinni um hrafninn á Hólmavík í sumar.

Þeir Páll og Friðþjófur fóru um víða veröld að fylgja fuglunum eftir og eltu til að mynda spóann alla leið til Afríku.  „Í samfloti við Einar Þorleifsson sem skrifaði handrit um spóann, þennan merkilega fugl, fórum við Friðþjófur til Gambíu og Senegal í Afríku að elta fuglinn. Foreldrarnir yfirgefa landið á undan ungunum, en ungarnir rata frá Íslandi til vesturstrandar Afríku allt niður undir miðbaug. Þetta fannst mér skrýtið en ratvísi er víst innbyggð í dýr, alveg eins og skyn á fjarlægðir og stefnur sem við skynjum ekki,“ segir Páll.

Páll Steingrímsson hefur gert vel á fjórða tug heimildarmynda og hlaut heiðursverðlaun íslensku kvikmyndaakademíunnar í fyrra. Myndaserían Fjórar fuglasögur fara einnig í dreifingu um víða veröld.

Ákvörðin um dagsetningu á sýningu myndarinnar um hrafninn á Hólmavík í sumar hefur ekki verið ákveðin, en hún mun liggja fyrir innan skamms. Stefnt er að því að viðburðurinn verði sem mestur.