18/04/2024

Hamingjudagar 29. júní – 2. júlí

Á fundi nýverið ákvað Menningarmála-nefnd Hólmavíkurhrepps að halda aftur á næsta ári hátíðina Hamingjudaga á Hólmavík, dagana 29. júní – 2. júlí 2006. Hreppsnefnd á líklega eftir að samþykkja gjörninginn formlega, en sú ákvörðun vefst varla fyrir, því fram kom á fundi nefndarinnar í ágúst að hreppsnefnd er hlynnt því að halda þessa hátíð á ný . Mikilvægt er að dagsetningar á svona hátíðahöldum liggi fyrir með góðum fyrirvara, til að hægt sé að auglýsa og markaðssetja sem best. Þá geta líka sérlegir vinir Hólmavíkur tekið helgina frá næsta sumar og Hólmvíkingar sjálfir haft dagsetninguna til hliðsjónar þegar utanlandsferðir og önnur náttúruskoðun er skipulögð. 


Enn er auðvitað mest allt á huldu um dagskrá hátíðarinnar og ekki hefur verið auglýst eftir framkvæmdastjóra. Sauðfjársetur á Ströndum hefur þó lýst yfir áhuga á að standa fyrir upphitunaratburði á fimmtudagskvöldi og hefur einnig ákveðið að færa árlega Furðuleika sína á Hamingjuhelgina og halda þá á sunnudeginum með meiri tilþrifum en nokkru sinni fyrr.