14/12/2024

Átaksverkefni fyrir fyrirtæki sem vinna að nýsköpun og þróun

Starfsorka er heitið á nýju átaksverkefni sem hefur það markmið að auðvelda fyrirtækjum að ráða fólk í atvinnuleit. Verkefnið er samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar og Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands og má fræðast nánar um það á www.impra.is. Þátttaka í verkefninu er opin fyrirtækjum og einstaklingum með rekstur á öllu landinu, en umsóknir um þátttöku verða afgreiddar vikulega fyrsta mánuðinn.

Verkefnið Starfsorka byggir þríhliða samningur milli Vinnumálastofnunar, fyrirtækis og atvinnuleitanda um ráðningu í störf sem lúta að nýsköpun og þróun og greiðslu atvinnuleysisbóta. Í samningunum samþykkir atvinnuleitandinn að Vinnumálastofnun greiði grunnatvinnuleysisbætur hans ásamt 8% mótframlagi í lífeyrissjóð beint til fyrirtækisins.

Fyrirtækið skuldbindur sig til að ráða atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins við þróun nýrrar viðskiptahugmyndar í allt að sex mánuði og greiðir honum laun samkvæmt gildandi kjarasamningi. Vinnumálastofnun greiðir sem nemur fjárhæð þeirra atvinnuleysisbóta sem atvinnuleitandi á rétt á úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fyrirtækisins auk 8% mótframlags í lífeyrissjóð þann tíma.