29/03/2024

Þingsályktun um rannsóknarleyfi fyrir Hvalárvirkjun

Sturla Böðvarsson, 1. þingmaður NV-kjördæmis, hefur sent bréf á alla þingmenn kjördæmisins þar sem farið er fram á að lögð verði fram þingsályktun um að veitt verði rannsóknaleyfi fyrir Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði, svo hægt sé að gera rannsóknir á svæðinu næsta sumar. Frá þessu er sagt á vef Ísfirðinga og þar segir enn fremur: Á undanförnum misserum hefur fyrirtækið VesturVerk á Ísafirði unnið að því að skoða kosti virkjunar vatnasviðs Hvalár í Ófeigsfirði. Vesturverk hefur látið reikna út orkugetu virkjunarinnar og lofa niðurstöðurnar góðu. Jafnframt hefur Almenna verkfræðistofan forhannað virkjunina.

Auk frekari athugana á hagkvæmni virkjunar Hvalár hefur fyrir tilstuðlan Vesturverks verið haldið fram vatnamælingum og jarðfræðiathugunum. Virkjunarsvæðið er afskekkt og erfitt yfirferðar og að því er fram kemur í bréfi Sturlu til þingmanna hefur VesturVerk átt náið samráð við landeigendur að finna leiðir til að lágmarka jarðrask vegna tækja sem eru nauðsynleg við rannsóknir upp á heiðinni. Í aðalskipulagi fyrir Árneshrepp mun verða gert ráð fyrir Hvalárvirkjun.

Í bréfi Sturlu segir: „Í ljósi þess að orkuöryggi er ekki viðunandi á Vestfjörðum, vegna aðstæðna á vinnumarkaði og efnahagsástandsins í landinu tel ég mikilvægt að allra leiða verði leitað til þess að hraða rannsóknum á svæðinu vegna þessarar virkjunar og auðvelda þessum aðilum sem hug hafa á að fjárfesta í virkjunarkostum."

"Að undanförnu hef ég í samráði við bæjaryfirvöld á Ísafirði unnið að því að skoða þetta verkefni og komist að raun um það hversu álitlegur kostur þessi virkjun kann að vera fyrir fjórðunginn. Því vil ég leita eftir því að þingmenn Norðvesturkjördæmis sameinist um þingályktunartillögu sem verði lögð fram strax á þessu þingi. Þingsályktunartillagan varðar stuðning við rannsóknir á svæðinu og annað er varðar verkefnið og eðlilegt er að stjórnvöld beiti sér fyrir. Ég hef þegar hafið undirbúning að gerð tillögunnar og mun leita eftir samstarfi við iðnaðarráðuneytið um málið. Óska eftir svari við þessari beiðni sem fyrst svo vinnan geti haldið áfram við tillöguna og þingmenn á þann veg lagt sitt í þetta mikilvæga verkefni.“

Virkjun Hvalár í Ófeigsfirði hefur verið til skoðunar hjá Orkubúi Vestfjarða allt frá árinu 1982. Uppsett afl Hvalárvirkjunar er áætlað 37MW og yrði það fengið með miðlun vatnsafls af Ófeigsfjarðarheiði.